Selur í sólbaði á Hótel Búðum

„Það hefur verið fyrir svona þremur eða fjórum vikum að við tókum eftir risastórum sel hinum megin við ósinn,“ segir Kristjana Elísabet Sigurðardóttir, starfsmaður á Hótel Búðum. „Við höfum fylgst með honum á ströndinni þar sem hann liggur. Svo frétti ég af því að fólk hefði farið alveg upp að honum, þannig að selurinn er mjög gæfur.“

Kristjana segir að hægt sé að fylgjast með selnum, sem er kampselur, með sjónauka úr sólstofunni á hótelinu.

„Í síðustu viku fór ég yfir til hans með vini mínum því okkur fannst hann svo sætur. Við vorum heillengi að stússa í kringum hann og honum var alveg sama. Hann fylgdist bara með okkur og lá og breiddi úr sér og vísaði maganum í sólina,“ segir Kristjana.

Þegar þau ákváðu að fara til baka á hótelið stóðst Kristjana ekki mátið að prófa að klappa honum. „Þannig að ég læddist upp að honum og kom við bakið á honum. Hann sneri sér að mér og fnæsti, en annars brást hann ekkert við. Ég held að hann sé kominn til að vera, hann lítur út fyrir að hafa það mjög notalegt. Hann teygir úr hreifunum eins og kettir gera þegar þeim líður vel og nuddaði þeim við trýnið og teygði á móti sólinni. Ég sá það á honum að honum leið ekkert smá vel,“ segir Kristjana.

mbl.is