Heimilt að synja um landgöngu

Vítisenglar,
Vítisenglar, Af vef Europol

EES ríki hafa heimild til þess að synja ríkisborgara annars EES-ríkis um landgöngu en viðkomandi stjórnvöld verða að tryggja að nægileg sönnunargögn séu um að veruleg ógn stafi af viðkomandi. Þetta er niðurstaða EFTA dómstólsins í máli norsks vítisengils sem var synjað um landgöngu á Íslandi.

Með dómi sem kveðinn var upp í dag veitti EFTA-dóm stóllinn ráðgefandi álit um spurningar sem honum bárust frá Hæstarétti Íslands þar sem óskað var álits á því hvernig túlka beri 7. gr. EES- samningsins og 27. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB frá 29. apríl 2004 um rétt borgara sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

Íslensk stjórnvöld synjuðu norskum ríkisborgara og meðlimi í Vítisenglum, Jan Anfinn Wahl, um landgöngu á Íslandi ern hann kom til landsins þann 5. febrúar 2010. Ákvörðun um synjun um landgöngu var einkum reist á „opnu hættumati” ríkislögreglustjóra sem varðaði ætlað hlutverk stefnanda í tengslum við fyrirhugaða inngöngu íslensks vélhjólaklúbbs í alþjóðleg samtök sem tengsl hefðu við skipulagða glæpastarfsemi.

Í hættumatinu var talið að alls staðar þar sem samtökin hefðu náð að skjóta rótum hefði aukin skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið. Matið var einnig reist á þeirri staðreynd að inngönguferlinu hefði verið stýrt frá Noregi.

Af beiðni Hæstaréttar varð enn fremur ráðið að upplýsinga og sönnunargagna hefði verið aflað og/ eða þau tekin saman sérstaklega í tilefni af heimsókn vítisengilsins til Íslands.

Ekki fallist á skaðabótakröfu Norðmannsins

Norðmaðurinn kærði ákvörðun íslenskra stjórnvalda en kæru hans var hafnað. Hið sama gilti um málshöfðun fyrir héraðsdómi, þar sem hann krafðist miskabóta og skaðabóta vegna fjártjóns. Hann áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar þar sem hann krafðist einungis miskabóta vegna frelsissviptingar að ósekju og álitshnekkis sem hann hefði orðið fyrir vegna hennar. Byggði hann kröfu sína á því að ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að synja honum um landgöngu hefði verið ólögmæt.

EFTA-dómstóllinn taldi að samkvæmt 7. gr. EES-samningsins hefðu EES/EFTA-ríki val um form og aðferð þegar þau tækju upp í landsrétt gerð sem svöruðu til tilskipunar. Innleiðing tilskipunar gerði ekki endilega kröfu um setningu laga, en það ræðst af þeim reglum sem fyrir eru í landsrétti.

Ákvæði tilskipunarinnar yrðu á hinn bóginn að hafa ótvíræð bindandi áhrif og vera innleidd með nægilega skýrum og glöggum hætti til þess að skilyrði meginreglunnar um réttarvissu séu uppfyllt.

Innflytjendastefna ekki hluti EES-samningsins

Dómstóllinn taldi að af ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar og yfirlýsingar nefndarinnar leiddi að „ríkisborgararéttur Sambandsins“ og „innflytjendastefna“ væru ekki hluti EES-samningsins.

Talið er að EES-ríki hefðu heimild til að synja ríkisborgara annars EES-ríkis um landgöngu með skírskotun til allsherjarreglu og/eða almannaöryggis á grundvelli hættumats eins og sér.

Slíkt hættumat þyrfti þá hafa að geyma mat á því hvert hlutverk viðkomandi einstaklings væri við inngönguferli að samtökum sem einstaklingurinn væri aðili að og ályktun um að þau samtök sem einstaklingurinn tilheyrði hefðu tengsl við skipulagða glæpastarfsemi og að sýnt væri að þar sem slík samtök hefðu skotið rótum hefði aukin og skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið.

Verður að byggja á framferði viðkomandi einstaklings

Þá var talið að áskilið væri að hættumat yrði einungis reist á framferði hlutaðeigandi einstaklings og að framferði einstaklings yrði að fela í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn við einhverja af grundvallarhagsmunum samfélagsins og að gæta yrði meðalhófs við takmarkanir ferðafrelsis.

Það væri á valdi landsdómstóla að leggja mat á hvort þessi skilyrði væru uppfyllt með hliðsjón af þeim st aðreyndum og málatilbúnaði aðila sem þýðingu hefðu hverju sinni. Þá taldi dómstóllinn að EES-ríki yrði ekki skyldað til að lýsa yfir ólögmæti samtaka og aðildar að þeim í því skyni að synja ríkisborgara annars EES-ríkis um landgöngu á grundvelli 27. gr. tilskipunarinnar, að því gefnu að slík aðgerð teldist viðeigandi undir þeim kringumstæðum sem fyrir hendi væru.

EES-ríki yrði á hinn bóginn að hafa af markað afstöðu sína til starfsemi þeirra samtaka sem um ræddi með skýrum hætti og yrði að hafa grip ið til stjórnvaldsathafna í því skyni að vinna gegn starfseminni, í þeim tilvikum þegar hún hefði verið álitin ógn við allsherjarreglu og/eða almannaöryggi.

Að endingu taldi dómstóllinn að innlend stjórnvöld yrðu að tryggja að nægileg sönnunargögn stæðu til þess að sýnt væri að tiltekinn einstaklingur væri líklegur til að viðhafa háttsemi sem teldist raunveruleg, yfirvofandi og nægilega alvarleg ógn við einhverja af grundvallarhagsmunum samfélagsins. Það væri á forræði landsdómstóla, með fyrirvara um að gætt væri meginreglna um jafnræði við málsmeðferð og skilvirkni, að skera úr um hvort svo væri.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert