Jökulsá braust í gegnum varnargarð

Jökulsá á Fjöllum hefur brotist í gegnum varnargarð og flætt …
Jökulsá á Fjöllum hefur brotist í gegnum varnargarð og flætt yfir Öskjuleið. Mynd úr safni. Rax / Ragnar Axelsson

Tilkynnt var um ófærð á Öskjuleið vegna vatnavaxta nú í morgun. Ástæðan er sú að Jökulsá á Fjöllum braust í nótt í gegnum varnargarð milli Lindár og Herðubreiðarlinda sem reistur var í fyrra. Flæðir áin nú í gegnum garðinn og yfir akveginn, sem aðeins er fær stærri bílum með vönum bílstjórum.

„Það er ekki akstursbann á veginum en það á að beina jepplingum og smærri bílum frá,“ segir Hrönn Guðmundsdóttir, landvörður í Öskju. „Sem stendur er hann fær stærri, breyttum bílum með vönum ökumönnum en aðstæður geta breyst mjög hratt þegar jökulvatnið er farið að grafa svona í veginn. Í hvert sinn sem bíll keyrir hér yfir grefst hann líka niður. Þetta er á að giska 100 metra kafli sem áin flæðir yfir veginn.“

Hrönn segir Vegagerðina, landverði og björgunarsveit vera mætt á svæðið til að fylgjast með gangi mála og bregðast við. „Það er allt farið í gang, Vegagerðin er að fara að grafa á leiðinni hingað inn eftir og þeir fara að bæta í varnargarðinn eða reyna að gera eitthvað til að loka þessari rás.“

Óvíst er hvenær vegurinn verður aftur fær. „Það fer eftir því hvernig gengur, það gæti verið fljótt en allavega ekki í dag. Við sjáum til á morgun,“ segir Hrönn.

Vex hratt í ánni

„Það er dálítið skrýtið að það er ekkert svo mikið í Jökulsá en það vex hratt í henni,“ segir Hrönn. „Það hafa verið mikil hlýindi hérna undanfarið, ennþá hlýtt og góð spá þannig að við höldum að það muni gefa vel í ána og það þurfi að fylgjast mjög vel með þessu á næstu dögum, maður veit ekkert hvað gerist.“

Hrönn segir að engum bíl hafi enn verið vísað frá. „Allir sem hafa komið hingað til hafa komist yfir svo við höfum ekki þurft að vísa neinum frá. Ég hugsa hins vegar að smæstu bílarnir núna ættu ekki að fara yfir því vatnið er orðið það djúpt að það getur verið hættulegt fyrir fólk í smæstu bílum.“

Frétt mbl.is: Öskjuleið ófær vegna vatnavaxta

mbl.is

Bloggað um fréttina