Þarf að skjóta mávana við Tjörnina

Mávar á Tjörninni mega fara að vara sig
Mávar á Tjörninni mega fara að vara sig Ómar Óskarsson

„Mávurinn er mjög frekur fugl og er alltaf að verða frekari,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, en hann lagði í gær á borgarráðsfundi fram tillögu þess efnis að að grípa þurfi til virkari aðgerða gegn vargfugli í Reykjavík.

Kjartan segist sjá fyrir sér að aðgerðirnar felist í þrennu. Í fyrsta lagi þurfi virkari aðgerðir við Tjörnina til að stugga honum í burtu, en það yrði gert með því að skjóta mávinn. Í öðru lagi þyrfti að setja upp áberandi skilti þar sem fólk verður beðið um að fæða ekki mávinn og í þriðja lagi ætti að fara með virkari hætti út í eyjarnar í Kollafirði til þess að eyðileggja varpið.

„Þetta eru gáfuð kvikindi og fljót að átta sig á því að þau eru ekki velkomin ef farið er að stugga við þeim. Á árinu 2006 var eitthvað skotið á þá og mávurinn breytti háttalagi sínum á nokkrum dögum, fór að passa sig og flaug hærra.“ Þá segir hann reynsluna sýna að endurnar fatti einnig að árásinni sé ekki beint gegn þeim.

Kjartan segir að eftir meirihlutaskiptin 2010 hafi dregið úr aðgerðum gegn mávunum og nú sé varla unga að sjá. „Ég hef enn ekki séð andarunga á aðaltjörninni. Það er búið er að hrekja þá alla í burtu eða þeir komnir í mávskjaft.“

„Það er auðvitað erfitt að gera upp á milli fuglategunda, en ég held að borgarbúar vilji frekar hafa endur og andarvarp á Tjörninni.“

mbl.is