Ævintýraleg mannanöfn leyfileg

Mjallhvít
Mjallhvít Af Wikipedia

Mannanöfn eru, líkt og annað, háð ytri áhrifum og tískustraumum. Þannig urðu nöfn á borð við Þengill og Líf vinsæl um það leyti sem sögurnar um Ísfólkið voru gefnar út og nafnið Óli Gunnar naut gríðarlegra vinsælda í kjölfar sigurmarks Ole Gunnars Solskjær fyrir Manchester United í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu árið 1999.

Samþykkt mannanafnanefndar á kvenmannsnafninu Þyrnirós hefur vakið mikla athygli og datt blaðamanni því í hug að grennslast fyrir um önnur eigin- og millinöfn sem leyfileg eru á Íslandi og tengjast ævintýrum og teiknimyndum. Tekið skal fram að hér er ekkert staðhæft um orsakasamhengi milli sagnapersóna og eiginnafnanna. Sum nafnanna eiga sér lengri sögu en sögupersónurnar og eins eiga margar teiknimyndanna rætur að rekja til Grimms-ævintýranna.

Þyrnirós er ekki eina opinbera Disney-prinsessunafnið sem hlotið hefur blessun mannanafnanefndar, en Mjallhvít, Fríða, Jasmín og Aríella eru einnig leyfileg kvenmannsnöfn. Þá eru enskar útgáfur Fríðu og Þyrnirósar, Bella og Áróra, leyfilegar. Sömuleiðis verður leyfilegt að skíra eftir næstu opinberu Disney-prinsessunni, en hún verður norsk og mun heita Anna.

Fjölmarga opinberu Disney-prinsanna má svo finna á lista yfir íslensk eiginnöfn drengja, en það er kannski ekki að furða enda heita þeir öllu hefðbundnari nöfnum, svo sem Filippus úr Þyrnirós, Eiríkur úr Litlu hafmeyjunni, Adam úr Fríðu og Dýrinu og John úr Pocahontas. Aríel er einnig leyfilegt karlmannsnafn. Bambi telst hins vegar seint til sígildra nafna, en það var samþykkt sem karlmannsnafn árið 2004.

Esmeralda úr sögunni um Hringjarann í Notre-Dame eftir Victor Hugo og samnefndri teiknimynd Disney hefur aldrei komist á lista opinberra prinsessa, enda var hún aldrei prinsessa, en engu að síður er leyfilegt að skíra því nafni hérlendis. Disney-ævintýri eru ekki þau einu sem notið hafa vinsælda hérlendis, en teiknimyndin Anastasía var gífurlega vinsæl á sínum tíma og er leyfilegt að skíra stúlkur nafninu Anastasíu. Þá naut teiknimyndin Prinsessan og durtarnir einnig vinsælda, en stúlkur geta einnig borið nafnið Írena eins og prinsessan þar.

Þau Edward og Gísela voru aðalhetjur leikna ævintýrisins Töfraprinsessunnar (Enchanted) sem kom út árið 2007. Edward er leyfilegur ritháttur karlmannsnafnsins Edvard en Gísela var leyft með úrskurði frá 2012. Einnig er leyfilegt að skíra börn sín eftir sögupersónum alleldri ævintýra, til dæmis sögunnar um Hróa hött, en bæði Hrói og Maríanna eru leyfileg eigninöfn. Þá er leyfilegt að bera millinafnið Blómkvist.

Hans og Gréta úr samnefndri sögu eru leyfileg eiginnöfn, sem og Lísa sem lesendur þekkja úr sögu Lewis Carroll um Lísu í Undralandi og samnefndri teiknimynd. Vanda er flestum kunnug úr sögunni um Pétur Pan og er nafnið leyfilegt kvenmannsnafn, sem og Pétur. Kvenmannsnafninu Lady var hafnað í sumar, en Lady var nafn aðal-kvenpersónunnar í teiknimyndinni Hefðarfrúin og umrenningurinn. Jane var hins vegar samþykkt sem stúlkunafn árið 2011, en Jane kom við sögu í teiknimyndinni um Tarzan. Enn hefur ekki reynt á hvort karlmannsnafnið Tarzan verði samþykkt.

Hringadróttinssaga naut gríðarlegra vinsælda, bæði við útgáfu bókanna og kvikmyndanna, og virðist sem hestaþjóðin Róhan hafi orðið landanum innblástur í nafngift. Jómar er leyfilegt karlmannsnafn og var Þjóðann leyft með úrskurði árið 2008. Sótt var um leyfi fyrir kvenmannsnafninu Jóvin, en því var hafnað árið 2004.

Segja má að bóka- og þáttaröðin Game of Thrones sé kyndilberi fantasía í ætt við Lord of the Rings um þessar mundir. Áberandi persóna þar er Arya Stark, sem leikin er af Maisie Williams sem stödd er hérlendis um þessar mundir við tökur á fjórðu seríu þáttanna. Kvenmannsnafnið Aría var samþykkt af mannanafnanefnd sumarið 2012. Gwendoline Christie, sem fer með hlutverk Brienne of Tarth, er einnig stödd hérlendis við tökur um þessar mundir, en Bríana og rithátturinn Bríanna eru leyfileg kvenmannsnöfn. Bera sex íslenskar stúlkur nafnið Bríana og er sú elsta fædd árið 2002 en sú yngsta 2012. Þess er kannski ekki langt að bíða að sótt verði um leyfi fyrir nöfnum á borð við Sansa, Eddard og Týríón.

Bambi
Bambi Af Wikipedia
Esmeralda
Esmeralda Af Disney Wiki
Amy Adams í hlutverki Gíselu í myndinni Enchanted.
Amy Adams í hlutverki Gíselu í myndinni Enchanted.
Enn hefur ekki reynt á hvort skíra megi Tarzan.
Enn hefur ekki reynt á hvort skíra megi Tarzan. Af Disney Wiki
Þjóðann konungur stýrði Róhan-ríki og var nafn hans samþykkt árið …
Þjóðann konungur stýrði Róhan-ríki og var nafn hans samþykkt árið 2008. Hér er hann ekki upp á sitt besta. Af LOTR Wikia
Maisie Williams (t.d.), sem fer með hlutverk Arya Stark í …
Maisie Williams (t.d.), sem fer með hlutverk Arya Stark í Game of Thrones, náðist á mynd á Lebowski um síðustu helgi. Ekki hefur verið sótt um nafn persónu „systur“ hennar, Sansa Stark. Instagram/Ásrún Ísleifsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Anna Dóra Gunnarsdóttir: Jane