Gögnum enn safnað á vettvangi

Lögreglu- og slökkviliðsmenn ásamt öðrum viðbragðsaðilum við störf á vettvangi.
Lögreglu- og slökkviliðsmenn ásamt öðrum viðbragðsaðilum við störf á vettvangi. Skapti Hallgrímsson

Teymi frá rannsóknarnefnd samgönguslysa er nú við störf þar sem sjúkraflugvél frá Mýflugi brotlenti eftir hádegið í gær. Óvíst er hvort vettvangsrannsókn lýkur í dag en þá tekur við frumrannsókn. Engar upplýsingar fást um samskipti á milli flugstjóra og flugturns áður en vélin brotlenti.

Sjúkraflugvél Mýflugs, sem fórst á kvartmílubrautinni í nágrenni Akureyrar í dag, hafði hætt við lendingu skömmu áður og var að fljúga hring um flugvöllinn þegar hún kom að akbraut Bílaklúbbs Akureyrar við Hlíðarfjall en þar stóð yfir tímataka vegna spyrnukeppni.

Í stað þess að fljúga yfir akbrautina lenti vélin mjög harkalega á brautinni þar sem kviknaði í henni. Tveir fórust, flugstjóri og sjúkraflutningamaður frá slökkviliði Akureyrar, en flugmaður komst lífs af og er ástand hans stöðugt.

Þorkell Ágústsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa segir að enn sé unnið að vettvangsrannsókn. Sé safnað gögnum á vettvangi og reynt að finna út hvaða vísbendingar vettvangurinn geti gefið um slysið. Í kjölfarið taki við frumrannsókn, þar sem meðal annars verður farið yfir samskipti milli flugstjóra og flugturns. Eftir það fari fram tæknirannsókn á flugvélinni.

Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri, segir slysið einnig til rannsóknar hjá embættinu. Áherslur séu eflaust ekki alveg þær sömu og hjá rannsóknarnefndinni en leitast er við að finna út það sama, þ.e. hvað varð til þess að vélin brotlenti. Hann segir rannsóknina enn á frumstigi og því ekkert hægt að segja til um orsök brotlendingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert