Vélin fór „neðar og neðar“

Flugvélin gjöreyðilagðist við brotlendinguna. Sjúkraflugvélin sem fórst var skrúfuþota.
Flugvélin gjöreyðilagðist við brotlendinguna. Sjúkraflugvélin sem fórst var skrúfuþota. Skapti Hallgrímsson

„Maður pælir í rauninni ekkert í því hvað maður er að gera. Við rifum bara upp slökkvitæki og teppi og hlupum að slysstaðnum,“ segir Ívar Helgi Grímsson, um viðbrögð sín en hann varð vitni að því þegar sjúkraflugvél brotlenti á kappakstursbraut við Hlíðarfjall á mánudag. Þrír menn voru í vélinni, tveir létust en einn komst lífs af og er hann ekki í lífshættu. Ívar og félagar hans slökktu m.a. eld sem logaði í braki af væng vélarinnar.

Ívar Helgi ók bíl sínum eftir brautinni aðeins nokkrum sekúndum áður en flugvélin brotlenti. Hann var ásamt nokkrum öðrum staddur í svokölluðu „pit stop“ svæði í um 50 metra fjarlægð frá slysstað þegar vélin brotlenti.

„Maður áttar sig ekki á þessu strax, ég sé flugvélina koma, fyrst hélt ég að þetta væri listflugvél eða eitthvað álíka. En svo áttaði maður sig á því að þetta væri miklu stærri vél en listflugvél og svo sá ég vélina fara neðar og neðar og neðar. Maður áttaði sig ekkert á því hvað var í gangi, ég fraus bara,“ svarar Ívar þegar hann er beðinn um að lýsa hvað fór í gegnum huga hans þegar flugvélin brotlenti.

Ívar er þeirrar skoðunar að mikil mildi sé að fólk á jörðu niðri hafi sloppið ómeitt. Lýsir hann því m.a. hvernig stél vélarinnar hafi endað á „pit stop“ svæðinu þar sem hann og nokkrir aðrir stóðu.

Áfallateymi Rauða krossins er enn að störfum og geta þeir sem vilja fá aðstoð leitað til Eyjafjarðardeildar Rauða krossins en húsnæði hennar er í Viðjulundi 2, Akureyri. Starfsmenn Mýflugs hittu í dag samstarfsmenn sína hjá Slökkviliði Akureyrar auk þess sem rætt var við flugmanninn sem lifði af flugslysið.

Vettvangsrannsókn klárast í dag

Vettvangsrannsókn rannsóknarnefndar flugslysa lýkur í dag að sögn Þorkels Ágústssonar, sem stýrir rannsókn slyssins, en í kjölfar hennar tekur við frumrannsókn. Litlar upplýsingar fást um gang rannsóknarinnar. Að lokinni vettvangsrannsókn verður flak flugvélarinnar flutt í húsnæði nefndarinnar til tæknirannsóknar.

Fjölmennt lið björgunarfólks kom á vettvang eftir brotlendingu vélarinnar.
Fjölmennt lið björgunarfólks kom á vettvang eftir brotlendingu vélarinnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert