Lenti í flugslysi fyrir 12 árum

Flak flugvélar Mýflugs flutt í gám.
Flak flugvélar Mýflugs flutt í gám. Skapti Hallgrímsson

Flugmaðurinn sem komst lífs af þegar sjúkraflugvél Mýflugs brotlenti við Akureyri á mánudag lenti í öðru flugslysi tólf árum áður upp á dag. Hann var þá flugnemi við Flugskóla Akureyrar í æfingaflugi með flugkennara. Hreyfill vélar þeirra, Piper PA 38-112 Tomahawk, missti afl, stöðvaðist og þurfti að nauðlenda henni í Garðsárdal í Eyjafirði. Var vélin þá í 3.600 feta hæð og um 25 km frá Akureyrarflugvelli.

Flugvélinni var lent mjúklega með stöðvaðan hreyfil á sléttu graslendi innarlega í Garðsárdal, en eftir um 70 metra lendingarbrun rann vélin út í mýri, stakkst fram fyrir sig og féll á bakið.

Mennirnir komust út um afturgluggann með því að brjóta rúðuna, þeir voru ómeiddir en flugvélin skemmdist talsvert. Mennirnir gátu látið vita af sér en þar sem ekki var hægt að aka alla leið í Garðsárdal gengu þeir til móts við björgunarmenn sem sendir voru á torfæruhjólum. Björgunarmennirnir hlúðu svo að þeim þar til þyrla Landhelgisgæslunnar sótti og flutti mennina til Akureyrar. Annar björgunarmannanna var Pétur Róbert Tryggvason, sjúkraflutningamaður, sem lést í flugslysinu á mánudag.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar flugslysa, nú Rannsóknarnefnd samgönguslysa, um flugslysið segir að orsök afltaps hreyfilsins hafi verið að eldsneytið gekk til þurrðar sökum þess að eldsneytismagn í tönkum vélarinnar var ofmetið fyrir flugið. Var það meðal annars vegna þess að magnmælar fyrir eldsneyti voru rangt stilltir og sýndu meira eldsneytismagn en raunverulega var á tönkunum.

Færður á almenna deild

Eins og áður segir komst flugmaðurinn lífs af þegar sjúkraflugvél Mýflugs brotlenti á akbraut Bílaklúbbs Akureyrar við Hlíðarfjall á mánudag og slapp í raun ótrúlega vel. Hann var í gær fluttur af gjörgæsludeild yfir á almenna deild.

Rannsókn brotlendingarinnar stendur enn yfir og getur staðið í nokkra mánuði til viðbótar. Því er óvíst hvenær hægt verður að upplýsa um það hvað gerðist og varð til þess að flugvélin brotlenti.

Frétt úr Morgunblaðinu 8. ágúst 2001 af slysinu í Garðsárdal.
Frétt úr Morgunblaðinu 8. ágúst 2001 af slysinu í Garðsárdal.
Frá samverustund í Glerárkirkju í gærkvöldi. Á borðinu má sjá …
Frá samverustund í Glerárkirkju í gærkvöldi. Á borðinu má sjá mynd af Pétri Róberti Tryggvasyni. Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert