Fáar stelpur sækja í tæknilegóið

Í sumar hafa áhugasamir krakkar á aldrinum 6-13 ára byggt og leikið sér með tæknilegó af miklum móð en Jóhann Breiðfjörð, fyrrverandi starfsmaður danska leikfangarisans, hefur leiðbeint krökkum á námskeiðinu og kennt þeim að smíða rafknúin tæki og tól af  öllum stærðum og gerðum. Námskeiðið hefur verið haldið undanfarin fjögur sumur og verið afar vinsælt en yfirleitt hafa færri komist að en viljað.

Mbl.is kom við í Háteigsskóla í dag þar sem 12 strákar byggðu og prufuðu sig áfram. Einbeitingin skein úr andlitunum en Jóhann segir að mikilvægt að ekki sé bara farið eftir leiðbeiningunum og krakkarnir fái tækifæri til að skapa og þróa eftir eigin höfði. Hann segir kynjaskiptinguna einhverra hluta vegna vera frekar einsleita, þó komi stúlkur stundum á námskeiðið og hann segir að lítinn mun megi sjá á verkum stúlkna og stráka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert