Íslendingar komu á óvart

Dettifoss er meðal þeirra staða sem Pam heimsótti og var …
Dettifoss er meðal þeirra staða sem Pam heimsótti og var hugsi yfir aðgenginu að þessari náttúruperlu. mbl.is/Rax

„Mér hafði verið sagt að Íslendingar væru svolítið kuldalegir. Svo það kom mér ánægjulega á óvart hvað allir sem ég hitti voru vinalegir og skrafhreifnir,“ segir bandaríski rithöfundurinn Pam Stucky sem fór af landi brott í dag eftir að hafa safnað efnivið í nýja ferðabók.

Pam ók m.a. hringinn í kringum landið og gerðist sjálfboðaliði í Gleðigöngu Hinsegin daga. Þá ræddi hún við nokkra íslenska rithöfunda, borgarstjórann í Reykjavík og bæjarstjórann á Akureyri, til að viða að sér efni.

Hún er hrifin af Íslandi en segir Íslendinga þurfa ígrunda vel næstu skref í ferðamennsku því margir staðir beri þess merki að átroðningur þar sé mikill. Væntanleg bók hennar um Ísland verður sú fyrsta í fyrirhugaðri ferðabókasyrpu, en Pam hefur til þessa aðeins skrifað skáldskap.

Fékk innblástur úr gömlum ferðabókum

Pam Stucky er frá Seattle í Washington-ríki Bandaríkjanna. Hún er höfundur vinsællar skáldsagnasyrpu sem nefnist Wishing Rock og gerast í ímynduðum bæ. Nú hyggst Pam hins vegar róa á ný mið og leggja ferðaskrif fyrir sig.

„Allar skáldsögurnar mínar koma með einhverjum hætti inn á ferðalög, því mér finnst sjálfri svo gaman að ferðast. Ég ákvað að snúa mér meira að því, en þetta verða ekki leiðsögubækur heldur frásagnir af minni upplifun og ævintýrum í hverju landi fyrir sig.“

Íslandsbókin verður sú fyrsta í röðinni, en í kjölfarið verða bækur um Sviss og Írland. En hvers vegna byrjar hún á Íslandi? Pam segist hafa fengið innblástur úr 15-20 ára gömlum ferðafrásögnum Pico Iyer, sem kallast „Falling Off the Map: Some Lonely Places in the World.“

„Hann skrifaði um einangraða staði og einn kaflinn fjallar um Ísland. Ég hafði í raun aldrei íhugað Ísland neitt áður en ég las verkin hans, en þau veittu mér innblástur til að koma hingað einhvern daginn.“

Íslendingar frábært fólk sem kemur á óvart

Pam fór af landi brott í dag eftir rúmlega tveggja vikna dvöl. Aðspurð um á hverju megi eiga von í skrifum hennar segir hún Íslandsupplifunina fyrst og fremst jákvæða. „Það stórkostlega við þetta land er fólkið, myndi ég segja. Ég hitti svo mikið af frábæru, kláru, umhyggjusömu og hlýju fólki sem var dásamlegt að tala við.“

Sem fyrr segir komu Íslendingar henni á óvart með því að vera mun opnari en staðalmyndin gefur til kynna. „Það voru allir til í að spjalla og það byrjaði strax með fyrsta manninum sem ég hitti, á bílaleigunni. Hann fór strax að ráðleggja mér hvert ég ætti að fara og hvað ég yrði að sjá.“

Varar við aðkomunni að Dettifossi

Pam keyrði hringveginn einsömul og segir landið óviðjafnanlega fallegt, en hún er hugsi yfir þeirri áskorun sem ör fjölgun ferðamanna felur í sér. 

„Manni virðst sem sumstaðar séuð þið komin að mörkum þess sem hægt er að taka við, miðað við aðstæður. Ég vona að þið séu að ræða það hvernig eigi að standa að uppbyggingu á þessum stöðum, ef markmiðið er að fjölga ferðamönnum enn frekar.“

Glöggt er gests augað, en aðspurð segist Pam ekki hafa neina einfalda lausn á reiðum höndum. „Þetta er erfitt jafnvægi, að byggja upp en passa um leið að missa ekki þá útgáfu af Íslandi sem ferðamenn koma hingað til að sjá.“

„Ég myndi allavega segja að á meðan þið eruð að útfæra þetta ættuð þið að passa að væntingar fólks séu raunhæfar. Ef fólki er lofað að Ísland sé svo frábært og fullkomið, en á svo ekki von á því t.d. hvað vegirnir eru sumstaðar þröngir og hættulegir, þá er hætt við því að það verði fyrir vonbrigðum.“

Í þessi samhengi nefnir hún Dettifoss sérstaklega, sem hún segir stórkostlegan stað en að hún muni ekki geta annað en varað fólk eins og foreldra sína við því að keyra sjálf að fossinum eins og ástandið sé á veginum þangað.

Tileinkaði sér „þetta reddast“ viðhorfið

„Markmiðið í mínum skrifum er að draga fram það jákvæða, en ætla heldur ekki að sykurhúða þetta neitt. Fólk verður að vita á hverju er von.“

Ferðasyrpan sem Pam stefnir að mun bera heitið „Pam on the Map“. Stefnt er að því að fyrsta bókin, um Ísland, komi út í október og verður hún fáanleg á rafbókaformi á Amazon

Næst á dagskrá er því að setjast við skriftir en ef vel gengur með fyrstu þrjár bækurnar vonast hún til að geta haldið ferðaskriftum sínum áfram og nefnir Króatíu, Ástralíu og Nýja-Sjáland sem mögulega framtíðaráfangastaði.

„Það er svo margt sem mig langar til að gera og ef allt fer að óskum tekst þetta vonandi. Hvernig er aftur þessi íslenski frasi...þetta reddast!“

Heimasíða Pam Stucky

Pam Stucky er alsæl með Íslandsdvölina en segir þó að …
Pam Stucky er alsæl með Íslandsdvölina en segir þó að huga þurfi að ýmsu á ferðamannastöðum. Ljósmynd/Úr einkasafni
Gleðigangan í Reykjavík var skemmtileg lífsreynsla að sögn Pam, en …
Gleðigangan í Reykjavík var skemmtileg lífsreynsla að sögn Pam, en hún tók þátt sem sjálfboðaliði. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina