Atvinnuleysi mælist 6,8%

Konum hefur fækkað á atvinnuleysisskrá en körlum fjölgað
Konum hefur fækkað á atvinnuleysisskrá en körlum fjölgað mbl.is/Ómar

Á öðrum ársfjórðungi voru að meðaltali 12.900 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 6,8% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 6,2% hjá konum og 7,4% hjá körlum. Fjöldi starfandi á öðrum ársfjórðungi 2013 var 175.500 manns eða 77,6% af mannfjölda. Hlutfall starfandi kvenna var 74,9% og starfandi karla 80,1%, samkvæmt frétt Hagstofu Íslands.

Atvinnulausum konum fækkar en atvinnulausum körlum fjölgar

Á öðrum ársfjórðungi fækkaði atvinnulausum um 400 frá öðrum ársfjórðungi 2012. Atvinnulausum konum fækkaði um 900 en atvinnulausum körlum fjölgaði um 500. Starfandi fólki fjölgaði á þessu tímabili um 3.300.

Á öðrum ársfjórðungi voru að jafnaði 188.300 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði og fjölgaði um 1,1% frá sama tíma ári áður eða um 2.800 manns. Jafngildir þetta 83,3% atvinnuþátttöku. Fjöldi fólks utan vinnumarkaðar var 37.900 og hefur því fólki fækkað um 1% frá fyrra ári eða um 400 manns. Atvinnuþátttaka kvenna var 79,9% og karla 86,5%.

Alls voru 185.500 á vinnumarkaði eða 82,9% atvinnuþátttaka og utan vinnumarkaðar voru þá 38.300. Atvinnuþátttaka kvenna var 80,7% og karla 85,1%.
Á vinnumarkaði eða til vinnuaflsins teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir. Atvinnuþátttaka er hlutfall starfandi og atvinnulausra (vinnuafl) af mannfjölda 16-74 ára

Langtímaatvinnulausum fækkar

Af þeim sem voru atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2013 voru að jafnaði 5.400 manns búnir að vera atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur eða 42,1% atvinnulausra. Til samanburðar höfðu 4.800 manns verið atvinnulausir í 2 mánuði  eða skemur á öðrum ársfjórðungi 2012 eða 36,2% atvinnulausra. Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir.

Þegar litið er til síðustu fjögurra ársfjórðunga þá hefur fækkað nokkuð í hópi langtímaatvinnulausra. Á öðrum ársfjórðungi 2013 höfðu um 2.000 manns verið langtímatvinnulausir eða 15,8% atvinnulausra samanborið við 2.600 á fyrsta ársfjórðungi og 3.300 á þriðja ársfjórðungi 2012.

mbl.is

Bloggað um fréttina