Þær reyndustu og elstu vinsælastar

Reyndustu og elstu konurnar reyndust vinsælastar á kampavínsklúbbi Stígamóta.
Reyndustu og elstu konurnar reyndust vinsælastar á kampavínsklúbbi Stígamóta. Morgunblaðið/Kristinn

„Það voru langar biðraðir hjá vinsælustu stúlkunum, segir Guðrún Jónsdóttir, framkvæmdastýra Stígamóta, en í kvöld fór fram opnunarhátíð kampavínsklúbbs samtakanna. Nokkrar konur buðu upp á spjall, söng, dans og fræðslu en dagskráin fór öll fram afsíðis. Gestum gafst kostur á að kaupa sér tíu mínútna einkaatriði fyrir 20 þúsund krónur og gátu viðskiptavinir drukkið frítt kampavín á meðan atriðin fóru fram.

„Það var gífurlega mikill áhugi og stemning og voru okkar reyndustu og elstu konur vinsælastar,“ sagði Guðrún í samtali við mbl.is. í kvöld. „Hér var fólki skemmt og það fékk félagsskap áhugaverðra kvenna.“

Að hennar sögn var fullt út úr dyrum og langar biðraðir hjá vinsælustu stúlkunum. Meðal gesta var borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, nokkrir þingmenn, velunnarar samtakanna og almenningur. Nokkur vonbrigði voru þó með kennsluna í lopasjalaprjóni, en enginn keypti sér aðgang að henni.

Guðrún segir að samtökin hafi sameinað fjáröflun, fræðslu og menningarstarfsemi og muni nú fara yfir það hvaða lærdóm megi draga af kvöldinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina