Ferðamenn við Jökulsárlón ráku upp stór augu þegar rostungur skreið þar á land í morgun. Rostungar halda til á rekísbreiðum og eru sjaldgæfir við Ísland en þó eru ekki nema tveir mánuðir síðan slík risaskepna spókaði sig á Reyðarfirði.
„Þetta er ofboðslega stórt dýr,“ segir Elouise, starfsmaður Jökulsárlóns. „Við höldum að hann sé kannski kominn hingað til að deyja því hann er mjög rauður í augunum og hann virtist vera að reyna að fara í sjóinn aftur en gat það ekki.“
Rostungsins varð fyrst vart í fjörunni neðan við lónið í morgun en hann var þar enn fyrir klukkustund samkvæmt heimildum mbl.is. Elouise segir að rostungurinn hafi verið sjánlegur frá veginum og að margir hafi stoppað til að skoða hann.
Þann 17. júlí sást til rostungs sem flatmagaði í sólinni á Reyðarfirði í um sólarhring og vakti mikla athygli vegfarenda. Sá lét sig renna aftur í sjóinn eftir stutt stopp og hvarf í djúpin.
Í september 2010 kom rostungur á land í mynni Flateyjardals. Hingað kom einnig rostungur um verslunarmannahelgina árið 2008, þá í Ófeigsfirði á Ströndum en þar áður sást síðast til rostungs hér við Hrafnabjörg í Arnarfirði árið 2005.
Mikið hefur verið um borgarís og íshröngl úti fyrir ströndum landsins undanfarna daga og má leiða að því líkur að rostungurinn í Jökulsárlóni hafi borist með ís í átt til Íslands. Ekki er heldur útilokað að sama skepna sé á ferðinni og sú sem sólaði sig á Reyðarfirði.
Fram kemur á vef Selasetursins á Hvammstanga að heimkynni rostunga séu rekísbreiður á grunnsævi með ströndum Norður-Íshafsins, m.a. við Austur- og Vestur-Grænland. Þeir fylgja ísröndinni eftir þegar hún færist árstíðabundið, en hafast ekki við á óbrotnum lagnaðarís.
Rostungar eru risavaxin dýr og geta brimlar orðið ríflega 3,5 metrar að lengd og þyngri en 1,6 tonn. Höggtennur brimla geta orðið allt að metri á lengd. Þær þjóna félagslegum tilgangi til að sýna stöðu einstaklingsins innan hópsins, en rostungar nota þær einnig sem vopn ef með þarf.
Rostungar geta verið skeinuhættir sjófarendum og eiga það t.d. til að ráðast á kajakræðara. Þeir kunna að snúast til varnar séu þeir ónáðaðir í návígi, en ættu þó ekki að vera hættulegir á landi séu þeir látnir í friði.