Tæplega 28 þúsund undirskriftir

Reykjavíkurflugvöllur
Reykjavíkurflugvöllur mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæplega 28 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til stuðnings þess að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni.

Á föstudagsmorgun setti félagið Hjartað í Vatnsmýrinni af stað undirskriftasöfnun til stuðnings Reykjavíkurvelli á vefnum www.lending.is. Þar er skorað á Reykjavíkurborg og Alþingi að tryggja óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar.

Undirskriftirnar verða afhentar borgarstjórn áður en frestur til að gera athugasemdir við tillögu að nýju aðalskipulagi rennur út hinn 20. september, en samkvæmt skipulaginu er gert ráð fyrir að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýri.

Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri og annar formaður félagsins, segir málið vera mikilvægt hagsmunamál landsmanna allra og telur undirskriftasöfnunina vera öflugan vettvang fyrir landsmenn til að tjá sig um málið.

„Við vorum með ýmsar hugmyndir til að vekja athygli á málinu og við töldum þessa leið henta mjög vel. Þetta er mjög skýr leið fyrir landsmenn til að koma fram með sína skoðun á málinu og við hvetjum alla til að skrifa undir,“ segir Njáll.

Félagið Hjartað í Vatnsmýri var stofnað hinn 8. júlí 2013 í þeim tilgangi að berjast fyrir því hagsmunamáli að tryggja óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri. Í stjórn félagsins eru 14 manns víða að af landinu og formenn eru þeir Friðrik Pálsson hótelhaldari og Njáll Trausti Friðbertsson flugumferðarstjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert