Tugir sýna Manning stuðning

Stöðumótmæli fyrir utan bandaríska sendiráðið til stuðnings Chelsea Manning.
Stöðumótmæli fyrir utan bandaríska sendiráðið til stuðnings Chelsea Manning. Ómar

Fjöldi fólks er viðstaddur stöðumótmæli sem Píratar efndu til fyrir utan bandaríska sendiráðið  klukkan 17 í dag til stuðnings uppljóstrarans Chelsea Manning, sem áður hét Bradley Manning.

Manning var í gær dæmd til 35 ára fangelsisvistar fyrir að leka fjölda leyniskjala er vörðuðu hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna til WikiLeaks. Hún mun í næstu viku sækja um náðun og var eft til mótmælanna til að hvetja Barack Obama Bandaríkjaforseta til að verða við þeirri bón.

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata segist ánægð með mætinguna og kveður um fimmtíu manns vera viðstadda. „Þegar ég hef verið að segja frá mótmælum á Íslandi erlendis þykir mæting eins og þessi mjög tilkomumikil miðað við höfðatölu.“

Hún segist vona að mál Manning veki athygli og samhug meðal Íslendinga. „Við upplifum tíma í heiminum þar sem bæði uppljóstrarar og blaðamenn eiga mjög mikið undir högg að sækja, við köllum þetta stríðið gegn upplýsingum. Þótt við séum fyrst og fremst að lýsa yfir stuðningi við Chelsea þá er okkur líka umhugað um alla hina sem sem sitja í fangelsi fyrir að miðla upplýsingum til almennings, hvort sem það er í Rússlandi, Bandaríkjunum, Kína eða Bretlandi.“

Birgitta kveður Íslendinga standa í þakkarskuld við Manning, en hann miðlaði meðal annars mikilvægum upplýsingum um Icesave-deiluna.

Bandaríska sendiráðið hefur hvatt bandaríska ríkisborgara á Íslandi til að halda sig frá sendiráðinu í dag vegna mótmælanna og segir Birgitta það ekki koma og óvart. „Ég hef haldið allskonar mótmæli og samstöðufundi og ég vissi af nákvæmlega eins bréfi til dæmis þegar ég var mótmæli gegn kínverskum yfirvöldum í tengslum við Tíbet. Þetta eru bara siðareglur utanríkisþjónustunnar.“

Birgitta segist því ekki kippa sér upp við þetta. „Mér finnst bara athyglisvert hvernig þeir láta það líta út eins og mótmæli séu eitthvað stórhættulegt fyrirbæri.“

Stöðumótmæli fyrir utan bandaríska sendiráðið til stuðnings Chelsea Manning.
Stöðumótmæli fyrir utan bandaríska sendiráðið til stuðnings Chelsea Manning. Ómar
Stöðumótmæli fyrir utan bandaríska sendiráðið til stuðnings Chelsea Manning.
Stöðumótmæli fyrir utan bandaríska sendiráðið til stuðnings Chelsea Manning. Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert