Menningarnótt sett með afhjúpun Obtusa

Menningarnótt var formlega sett með afhjúpun á útilistaverkinu Obtusa eftir bandaríska listamanninn Rafael Barrios við Höfðatorg í Reykjavík. Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, afhjúpaði verkið. Blásarasveit gekk að afhjúpun lokinni í kringum skúlptúrinn.

Skúli Mogensen og Margrét Ásgeirsdóttir eigendur listaverksins buðu Listasafni Reykjavíkur Obtusa að láni eftir að hafa séð hvað verkið naut sín vel á almannafæri í New York síðastliðið sumar að því er segir í tilkynningu.

„Sýning á níu skúlptúrum eftir Rafael Barrios var sett upp meðfram Park Avenue á Manhattan í New York síðastliðinn vetur. Þar á meðal var verkið Obtusa. Vegfarendur í New York gátu séð verkin frá mismunandi sjónarhornum og vöktu þau feikilega athygli og aðdáun,“ segir ennfremur. Staðsetning verksins við Höfðatorg sé hugsað til þess að sem flestir geti notið þess.

„Verkið virðist vera úr fjórum þrívíðum formum en þegar horft er á það frá einni hlið sést að það er aðeins tæplega einn sentímetri að þykkt. Hægt verður að ganga í kringum verkið og sjá hvernig formin breytast eftir sjónarhorninu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert