Hvaða álver á Íslandi lokar fyrst?

Ketill segir ólíklegt að nokkurt álfyrirtæki leggi í stórar fjárfestingar …
Ketill segir ólíklegt að nokkurt álfyrirtæki leggi í stórar fjárfestingar í nýju álveri á Íslandi á næstu árum. mbl.is/Eggert

Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum, segir að áliðnaðurinn sé í miklum vandræðum og það sé í reynd ólíklegt að nokkurt álfyrirtæki leggi í stórar fjárfestingar í nýju álveri á Íslandi á næstum árum. Þetta kemur fram í pistli sem Ketill skrifar sem ber yfirskriftina Hvaða álver á Íslandi lokar fyrst?

„Í kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar nú í vor virtist sem sumir þingframbjóðendur teldu það nánast formsatriði að koma framkvæmdum á fullt við byggingu nýs álvers í Helguvík. Þetta viðhorf var sérstaklega áberandi hjá frambjóðendum í Suðurkjördæmi, en innan kjördæmisins eru bæði Helguvík og margir virkjunarkostir.

Umrætt viðhorf stjórnmálamannanna bar ekki vott um mikið raunsæi eða skynsemi. Því hinn kaldi raunveruleiki er sá að áliðnaðurinn er í miklum vandræðum. Þess vegna er í reynd ólíklegt að nokkurt álfyrirtæki leggi í stórar fjárfestingar í nýju álveri hér á Íslandi á næstu árum,“ skrifar Ketill, en hann fer yfir stöðuna í áliðnaði í heiminum.

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2 í kvöld kom fram að stjórnendur Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls, séu óþreyjufullir að koma framkvæmdum við álver í Helguvík aftur af stað, en þetta er haft eftir Mike Bless, forstjóra fyrirtækisins. Hann bætti því við að ríkisstjórnin sýni álverinu mikinn stuðning.

Áhyggjuefni fyrir Íslendinga

Ketill bendir á, að áliðnaðurinn á Íslandi noti rúmlega 70% af allri raforku sem hér sé framleidd. „Tekjur íslensku raforkufyrirtækjanna af þeirri raforkusölu ráðast verulega af álverði - vegna þess að í raforkusölusamningunum við álfyrirtækin hér hefur í gegnum tíðina tíðkast að verðið á raforkunni sé tengt álverði á heimsmarkaði,“ skrifar hann.

„Slík tenging er álfyrirtækjunum hagstæð - hún dregur umtalsvert úr áhættu þeirra. Um leið leggur slík tenging aukna áhættu á íslensku orkufyrirtækin. Lágt álverð kemur ekki aðeins niður á afkomu stóru íslensku raforkufyrirtækjanna heldur dregur það líka úr gjaldeyristekjum íslenska hagkerfisins og heldur þannig aftur af styrkingu íslensku krónunnar. Ástandið á álmörkuðum er því áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga,“ skrifar hann ennfremur.

Ketill segist ætla að fjalla nánar um horfurnar í áliðnaðinum á komandi vikum. 


Ketill Sigurjónsson.
Ketill Sigurjónsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert