Óháð stofnun vinni skýrslu um ESB

Gunnar Bragi Sveinsson og Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi …
Gunnar Bragi Sveinsson og Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í Brussel fyrr í sumar. Skjáskot/EbS Channel

„Við fórum yfir lögfræðiálitið sem var útskýrt af sérfræðingum fyrir nefndinni. Það hefur enginn hrakið það,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra um meginefni fundar utanríkismálanefndar síðdegis. Vísar ráðherrann þar til lögfræðilegar álitsgerðar vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á aðildarviðræðum við ESB og að stöðva frekari vinnu samninganefndar og –hópa. 

Varðaði álitsgerðin bindandi áhrif þingsályktana, í þessu tilviki þingsálytkunar síðustu ríkisstjórnar hinn 16. júlí 2009 um að sækja um aðild að ESB. 

Telur Gunnar Bragi aðspurður því að öllum spurningum stjórnarandstöðunnar um Evrópumálin sé svarað í bili, en sl. föstudag svaraði hann sjö spurningum Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingar, um stöðu ESB-umsóknarinnar. 

„Ég hafði forgöngu um að lögfræðiálitið yrði rætt í nefndinni. Ég held mínu striki við að sjá til þess að það sé hlé á þessum viðræðum. Evrópusambandið hefur skilning á því. Það er sjálft að nota sitt fólk í önnur verkefni sem var í Íslandsviðræðunum. Eftir því sem ég best veit er það komið í verkefni sem lúta að næstu ríkjum í stækkunarferlinu.

Ég fór svo yfir næstu skref í ESB-málinu sem er að leggja skýrslu um ESB fyrir þingið. Vonandi verður það í nóvember. Í framhaldi af því verður umræða á Alþingi og ákvarðanir teknar eða ekki. Það á eftir að koma í ljós,“ segir Gunnar Bragi.

Skýrsla um þróun mála innan ESB

Vísar hann þar með til skýrslu um gang aðildarviðræðna Íslands við ESB til þessa, um þróun mála innan ESB og hvert sambandið stefni.

Spurður hvenær nefnd sem ætlað er að vinna skýrsluna verði skipuð segir Gunnar Bragi allar líkur á að óháð stofnun vinni skýrsluna fyrir ráðherrann.

Annað mál á dagskrá nefndarinnar var Sýrland og átökin þar.

„Ég svaraði spurningum fulltrúa minnihlutans um hvort íslenska ríkisstjórnin hefði verið beðin um að lýsa yfir stuðningi við einhvers konar hernaðaraðgerðir. Ég upplýsti að það hefði ekki verið farið fram á neitt slíkt. Bandalagsþjóðir okkar fóru fram á það við okkur að við lýstum yfir andstöðu við beitingu efnavopna. Að sjálfsögðu gerðum við það. Það þurfti enga hvatningu til.

Ég sagði að ef einhver skref yrðu tekin í Sýrlandsmálinu yrði það gert í fullu samráði við nefndina,“ segir Gunnar Bragi. Ótímabært sé að ræða hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar verði ef nýjar upplýsingar koma fram í málinu. Hann telji ekkert hafi komið fram í tengslum við átökin í Sýrlandi sem réttlæti hernaðaraðgerðir.

Fundur nefndarinnar hófst klukkan 17.00 síðdegis og lauk honum klukkan 18.15.

Þriðji liður á dagskrá var önnur mál og segir Gunnar Bragi að ekkert hafi verið tekið fyrir undir þeim lið.

mbl.is