Stúdentaráð hafði betur gegn LÍN

SHÍ Fulltrúar Stúdentaráðs kynntu stefnuna fyrir fjölmiðlamönnum.
SHÍ Fulltrúar Stúdentaráðs kynntu stefnuna fyrir fjölmiðlamönnum. Styrmir Kári

Stúdentaráð hafði betur gegn Lánasjóði íslenskra námsmanna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Viðurkennt er að skólaárið 2013 til 2014 er LÍN óheimilt að gera kröfu um að námsmaður ljúki fleiri en átján einingum á námsmisseri. Þetta kemur fram í dómi héraðsdóms sem kveðinn var upp nú klukkan 14.

Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) stefndi í júlí stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og íslenska ríkinu vegna breytinga á lánareglum sjóðsins. Öll stúdentafélög háskólanema á Íslandi, auk Sambands íslenskra námsmanna erlendis, gerðust síðar aðilar að stefnunni.

Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður SHÍ, sagði í samtali við mbl.is í júlí að markmiðið með breytingunum á útlánareglum LÍN væri beinlínis að fækka nemendum. Slíkt markmið segir hann vera ólögmætt. „Við teljum að það sé hæpið að það sé lagastoð fyrir þessari reglusetningu. Auk þess teljum við að hún sé afturvirk með íþyngjandi hætti. Það sem skiptir kannski hvað mestu máli er að við teljum að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið því að þessar breytingar voru gerðar.“

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði á sama tíma að stúdentar hefðu rétt til að fara dómsmálaleiðina „en ég tel þó einsýnt að ríkið hljóti að geta tekið ákvarðanir sem þessar. Við erum með þessum breytingum að bregðast við því að það er gríðarlegur halli á ríkissjóði, miklu meiri en áður var talið. Ríkisstjórnin þarf að bregðast við þessu í þessum málaflokki sem og öllum öðrum málaflokkum. Ríkið hlýtur að hafa allt svigrúm til þess að haga málum með þeim hætti sem var gert hjá stjórn LÍN og ég hef staðfest,“ sagði Illugi.

SHÍ áætlar að breytingin á úthlutunarreglunum sem gerir þá kröfu að námsmenn ljúki 22 einingum á ári til að eiga rétt á námsláni í stað 18 eininga áður hafi áhrif á um 16% stúdenta, eða um 2.000 manns. Líklega sé þar um að ræða fjölskyldufólk, fólk með námsörðugleika eða fólk sem getur af öðrum ástæðum ekki stundað nám sitt á fullum hraða.

mbl.is