Við sömu götu í sjötíu ár

„Mér fannst algjörlega óbyggilegt þegar við settumst hér að. En ég hef haft það mjög gott,“ segir Margrét Jóna Ísleifsdóttir, sem ætlaði að dvelja í þrjá mánuði á Hvolsvelli en hefur nú búið þar við sömu götu í 71 ár.

Hvolsvallarkauptún heldur um þessar mundir upp á 80 ára afmæli sitt og var Margrét því ein frumbyggja á staðnum. Hún ólst upp í Fljótshlíð en flutti á Hvolsvöll árið 1942 til að vinna, tímabundið, í Kaupfélagi Hallgeirseyjar. Henni leist hreint ekki vel á staðinn, en fyrr en varði hafði hún þó skotið þar rótum.

„Ég man að fyrsta sumarið hér fannst mér ég ekkert sjá nema hrafninn. Hér var ekkert nema grágulur mói, fyrir nú utan það að hérna voru engin þægindi. Það var ekki einu sinni nóg vatn. En svo þegar við vorum búin að fá rafmagnið, hitaveitu og ágætar götur, nú og fuglalífið var orðið líflegt, þá fannst mér ég bara getað unað vel við mitt,“ segir Margrét Jóna.

Dýrmætt land eftir uppgræðsluna

Aðspurð segist Margrét kenna manninum sínum, Pálma Eyjólfssyni heitnum, um þetta allt saman. Þau kynntust í gegnum kaupfélagsstörfin og hann varð til þess að hún ílengdist á Hvolsvelli, þar sem þau urðu meðal þeirra fyrstu til að byggja sér hús. Kaupfélagið var hryggjarstykkið í samfélaginu á þeim tíma að sögn Margrétar, og þorpið byggðist smám saman upp út frá því.

„Maður ræður ekki sínum næturstað, ég held að það sé alveg óhætt að segja það,“ segir Margrét. „Ég sá sjálf voðalega litla framtíð hér, en aftur á móti sá maðurinn minn hér mikla framtíð og vildi ekki annars staðar vera. Ég held að hann hafi séð þetta fyrir.“

Á þessum tíma bar Hvolsvöllur mjög merki nábýlisins við eitt virkasta eldfjall á landinu, Heklu. „Það var lítið farið að græða upp á Rangárvöllum og í norðanátt barst bæði mold og sandur hér yfir allt. Ég man að á vorin var það alveg árvisst að það kom nokkurra daga moldveður. En það má nú segja að nú sé völlurinn grösugur og þegar maður sér alla þessa heybagga þar, þá finnst manni þetta vera dýrmætt land.“

Margrét segir flesta frumbyggja Hvolsvallar hafa byrjað fljótlega að planta. „Enda er feikilegur gróður hér núna og það er líka veðursæld. Maður finnur það, að það er hægt að bæta veðurfar með gróðri. Það er maður búinn að sjá.“

Fallegur fjallafaðmur

Margrét og Pálmi höfðu nýstofnað heimili á Hvolsvelli þegar Hekla gerði vart við sig að nýju, með miklu gosi árið 1947. Aðspurð hvort þetta hafi ekki dugað til að flæma landnemana burt af svæðinu skellir Margrét upp úr og þverneitar því.

„Það er svo undarlegt að ég hef aldrei hræðst þetta. Ég upplifði náttúrulega öskufallið hér 1947, það var mikið, en líka undursamlega fljótt að jafna sig. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og þetta varð einmitt mikið rigningarsumar sem hélt vikrinum niðri og gróðurinn kom fljótt upp úr.“

Fleiri eldgos og jarðskjálftar hafa fylgt í kjölfarið en náttúran á Hvolsvelli er Margréti engu að síður afar kær. „Ég elst upp inni í miðri Fljótshlíð. Þá hef ég Þríhyrning fyrir augunum, Vestmannaeyjar, Eyjafjallajökul og inn í Mörkina. Þetta er geysilega fallegur fjallafaðmur, alveg dýrlegt. Ég held að enginn sé svo ónæmur fyrir fegurð að hann sjái þetta ekki.“

Eyjafjallajökulsgosið árið 2010 fannst henni þó verst. „Ég skildi það ekki þegar Eyjafjallajökull fór að gjósa. Þessi jökull sem ég var búin að elska alla tíð frá því ég var bara barn. Ég trúði því aldrei að hann myndi gera mér þetta.“

Ógleymanlegar Merkurferðir

Náttúruperlan Þórsmörk er rétt við bæjardyrnar á Hvolsvelli og Margrét á margar góðar minningar frá Merkurferðum.

„Ég fór fyrst með mínum jafnöldrum 16 ára gömul inn í Þórsmörk, þá var farið á hestum og það var svo gaman að unga fólkið gat náttúrulega ekki sofið. Það er ekki hægt að sofa bjarta vornótt. Svo þessi hópur bara vakti og það var sungið alveg þvílíkt, við sungum ættjarðarljóð og eitthvað fallegt eftir Þorstein Erlingsson. Ég held mér hafi alltaf þótt mest gaman að koma á vorin þegar allt er að lifna og ilmar svo yndislega. Þórsmörk er alveg sér á parti, algjör paradís.“

Aðspurt hvað henni finnist um að deila Þórsmörk núna með sívaxandi straumi ferðamanna segir Margrét ekki kippa sér upp við það, þangað sé eftir miklu að sækjast. Íbúum Hvolsvallar fjölgar líka jafnt og þétt og þar á meðal eru margir útlendingar. Margrét fagnar því en segir af sem áður var þegar allir þekktu alla.

Glöddust og grétu saman

„Þetta var eins og stór fjölskylda og það tóku allir þátt í kjörum hver annars, glöddust yfir því sem var gott og grétu með þeim sem áttu bágt. Það hjálpuðust allir við að byggja og þegar farið var að steypa var hér mikið fjör og líf.“

Hún segir að mikill hugur hafi verið í fólki þegar Hvolsvöllur var að byggjast upp sem hafi m.a. sést á því þegar félagsheimilið Hvoll var byggt.

„Það var mikið átak. Þá vorum við held ég 200 hér og þetta þótti brjálæði, allt of stórt hús. En svo var húsið byggt og allir voru glaðir yfir þessu. Það er það sem mér finnst þegar ég horfi yfir þennan liðna tíma, að það hefur alltaf verið eitthvað til að gleðjast við.“

80 ára afmælishátíð um helgina

Umræddur Hvoll verður einmitt m.a. vettvangur hátíðahalda á sunnudaginn, 1. september, vegna 80 ára afmælis Hvolsvallar. Dagskráin hefst um morguninn með samverustund á gamla róló áður en gengið verður með leiðsögn um fyrstu götur Hvolsvallar.

Klukkan 15 síðdegis hefst svo hátíðardagskrá í Hvoli þar sem boðið verður upp á kaffi og afmælisköku. Saga Hvolsvallar verður rakin í stuttu máli með upplestri og leik, Hvolsvallarlög flutt og gamlar ljósmyndir sýndar.

Margrét Jóna Ísleifsdóttir var meðal þeirra fyrstu til að byggja …
Margrét Jóna Ísleifsdóttir var meðal þeirra fyrstu til að byggja sér hús á Hvolsvelli og hún býr þar enn nú þegar bærinn fagnar 80 ára afmæli. mbl.is/Arnar Steinn
Svört aska Eyjafjallajökuls setti mark sitt á grænar sveitir Rangárþings …
Svört aska Eyjafjallajökuls setti mark sitt á grænar sveitir Rangárþings eystra 2010. Margrét segist varla hafa getað trúað því upp á jökulinn elskaða að láta svona. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Árnar á Suðurlandi voru lengi miklir farartálmar. Þegar unnt var …
Árnar á Suðurlandi voru lengi miklir farartálmar. Þegar unnt var að brúa þær sköpuðust forsendur fyrir þéttbýlismyndun á Hvolsvelli. mbl.is/Rax
Náttúruperlan Þórsmörk er við bæjardyrnar á Hvolsvelli og Margrét á …
Náttúruperlan Þórsmörk er við bæjardyrnar á Hvolsvelli og Margrét á margar góðar minningar af Merkurferðum, þá fyrstu á hestum 16 ára gömul. mbl.is/Rax
mbl.is