Einstakir málaflokkar ekki undanskildir

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er verkefni okkar allra að bregðast við þeirri staðreynd að íslenskt samfélag nær ekki endum saman. Flatur niðurskurður eða almenn hagræðingarkrafa á allar stofnanir er ekki lausnarorðið. Staðreyndin er að við þurfum að hvetja til aukinnar framleiðni á öllum sviðum samfélagsins og íslenskt samfélag þarf að fá sem mest fyrir það fjármagn sem veitt er til einstakra málaflokka.“

Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, á heimasíðu sinni í dag en hann er formaður sérstaks hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar en með honum í hópnum eru þau Guðlaugur Þór Þórðarson og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Hann segir ástæðu til að árétta að hagræðingarhópurinn sé hvorki að semja fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar né muni hann leggja til beinan niðurskurð eins og til kvikmyndagerðar.

Svigrúm til að verja velferðarkerfið

„Það er ríkisstjórnin og fjármálaráðherra fyrir hönd hennar sem leggur fram fjárlagafrumvarp og hlýtur að vera að skoða þessi mál og fleiri. Hagræðingarhópurinn mun hinsvegar leggja til ýmsar kerfisbreytingar og ljóst að margar þeirra munu, bæði strax og til lengri tíma, stuðla að breytingum á fjárlögum hins opinbera,“ segir Ásmundur ennfremur og bætir við að þrátt fyrir að breytingar kalli oft á tíðum á erfiðar aðgerðir skapi framleiðniaukning í ríkisrekstri aukið svigrúm til þess að verja velferðarkerfið.

„Margir hafa verið að spyrja hvað sé til skoðunar og telja jafnvel að einstaka málaflokkar verði undanskildir. Það hefur eflaust valdið lítilli gleði fjölmiðlamanna að lögð hefur verið áhersla á að tjá sig ekki mikið um einstakar hagræðingarhugmyndir meðan þær eru í vinnslu.  Hinsvegar er mikilvægt að allir átti sig á þeirri staðreynd að kerfisbreytingar sem leiða til aukinnar hagræðingar eru nauðsynlegar á mörgum sviðum samfélagsins og ekki verður hægt að undanskilja einstaka málaflokka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina