Ræðismaður náði sér í hvalkjöt

Aðalræðismaður Færeyja á Íslandi náði sér í sér í grindhval …
Aðalræðismaður Færeyja á Íslandi náði sér í sér í grindhval um helgina. Af vef Portal

Hákun Jógvansson Djurhuus, aðalræðismaður Færeyja á Íslandi, nýtti tækifærið um helgina og náði sér í grindhval en líkt og margir vita er dýrið vinsælt til matar í Færeyjum. Hákun sagðist í samtali við færeyska fréttavefinn Portal aldrei hafa fengið svo stóran hluta af grindhval. Fjölmargir söfnuðust saman í Baugsfjöru við Ólafsvík í gær til að skera kjöt af tugum grindhvala sem ráku að landi síðdegis á laugardag og drápust í fjörunni.

Hákun segist hafa fengið skilaboð frá vini í íslenska utanríkisráðuneytinu sem vildi vita hvort hann væri ekki farinn af stað að ná sér í kjöt af grindhval. „Ég hafði ekki heyrt af hvölunum og fékk þá að heyra af atvikinu á Rifi. Við athugðum hvort við hefðum leyfi til að ná okkur í kjöt og þegar við fengum jákvætt svar, þá drifum við okkur af stað,“ segir Hákun.

Íslendingarnir með litla hnífa og kunnu ekki til verka

Ræðismaðurinn segist nú eiga kjöt til margra ára. Hann segir að langan tíma taki að keyra frá Reykjavík að Rifi, eða um tvær og hálfa klukkustund en Færeyingur sem ætli sér að ná sér í grindhval, setji vegalengdina ekki fyrir sig.

Hákun lýsir aðstæðum á Rifi og segir að grindhvalirnir hafi ekki verið drepnir, líkt og tíðkast í Færeyjum, heldur hafi þá rekið á land í óveðri á laugardagskvöldinu og drepist í fjörunni. Hvalir hafi legið hér og þar um fjöruna og í grjótinu. „Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt, grindhvalirnir lágu allsstaðar,“ sagði Hákun. „Þetta leit út eins og  þeir hefðu fallið af himnum ofan.“

Hákun valdi sér hval og skar hann ásamt konu sinni. Hann segir marga hafa drifið að í von um að ná sér í björg í bú, en fæstir hafi kunnað til verka. „Flestir voru bara með litla hnífa,“ segir hann.

Frétt færeyska fréttavefsins Portal

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert