Mörg stór verkefni stjórnvalda

„Ríkisstjórnin mun við upphaf nýs þings leggja fram fjölmörg frumvörp til að ná þeim markmiðum sem hún hefur sett sér. Mörg þessara frumvarpa verða umdeild. Sum vegna þess að með þeim er horfið frá stefnu síðustu ríkisstjórnar, sum vegna þess að einhverjir munu telja sig þurfa að leggjast gegn sem flestu af því sem frá ríkisstjórninni kemur.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í munnlegri skýrslu á Alþingi í dag um störf ríkisstjórnar sinnar. Sagðist hann ennfremur vona að umræðan í þinginu í vetur bæri svip uppbyggilegrar rökræðu og að vonandi yrði í sameiningu hægt að gera næsta þing að miklu framfaraþingi. Í ræðu sinni fór ráðherrann yfir helstu verkefni sem unnið væri að á vegum stjórnarinnar en framhaldsfundur frá síðasta þingi hófst á Alþingi í dag og mun standa til 18. september næstkomandi. Skýrsla forsætisráðherra og umræður um hana er eina mál þingfundar í dag.

„Mörg af verkefnum stjórnvalda eru stór og munu verða viðfangsefni næstu mánaða og ára. Sum þeirra eru þess eðlis að þau munu jafnvel endast út kjörtímabilið og halda áfram á því næsta. Vinna við flest þessara verkefna hófst þegar á fyrstu vikum nýrrar ríkisstjórnar. Rétt er að geta þess að í sumum tilvikum hefur verið haldið áfram með vinnu sem hófst í ráðuneytunum í tíð síðustu ríkisstjórnar,“ sagði Sigmundur.

„Frá þessu verkefni má ekki hvika“

Forsætisráðherra fór meðal annars yfir þann farveg sem skuldamál heimilanna hefðu verið sett í eftir kosningar og skipan sérfræðingahópa í þeim efnum. „Það er ljóst að vinnan sem tengist skuldavanda heimilanna er eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar og mun þegar hún er til lykta leidd verða til þess að íslensk heimili ná aftur hluta af þeim eignum sem töpuðust í verðbólguskoti áranna 2007-2010.“

Sigmundur sagði það vera samfélaginu í heild til framdráttar að koma til móts við þessi heimili. „Í undirbúningi eru róttækustu aðgerðir stjórnvalda nokkurs staðar í veröldinni í þágu skuldsettra heimila. Rekstrarumhverfi fyrirtækja mun taka stakkaskiptum með breyttu og skilvirkara regluverki og jákvæðum hvötum sem ýta undir fjölgun starfa, auka verðmætasköpun og bæta kjör. Skattkerfið allt er til endurskoðunar til að tryggja hámarksávinning samfélagsins.“

„Þar má ekki horfa aðeins í kostnaðinn sem aðgerðirnar hafa í för með sér, því að kostnaður samfélagsins verður enn meiri til framtíðar ef ekkert verður gert. Frá þessu verkefni má ekki hvika,“ sagði forsætisráðherra ennfremur.

Tilnefningar ekki borist frá öllum flokkum

Þá nefndi Sigmundur meðal annars endurskoðun stjórnarskrárinnar sem hlyti að teljast eitt af mikilvægustu verkefnum löggjafans. „Ég treysti því að Alþingismenn úr öllum flokkum taki það verkefni alvarlega og vinni af heilindum að því að ná samstöðu um ágreiningsmál sem upp kunna að koma á þeirri leið.“

„Ég hef óskað eftir tilnefningum frá öllum stjórnmálaflokkum í 9 manna nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem skal vinna á þessu kjörtímabili, og bind ég miklar vonir við þá vinnu en hún byggist á samkomulagi þingflokka frá því í sumar. Ekki hafa enn borist tilnefningar frá öllum stjórnmálaflokkum en ég vona að þær berist sem fyrst þannig að unnt verði að hefja þetta mikilvæga starf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert