Hundur bjargaði mannslífum

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út að fjölbýlishúsi í Kríuási í Hafnarfirði á þriðja tímanum í nótt en þar logaði töluverður eldur í íbúð á jarðhæð. Þrír íbúar og hundur voru í íbúðinni þegar eldur kviknaði. Enginn reykskynjari var í íbúðinni en íbúarnir vöknuðu þegar hundurinn fór að gelta. Fólkið komst með naumindum út.

Tilkynning barst Slökkviliðið höfuðborgarsvæðisins kl. 02:07 í nótt og voru allar stöðvar sendar á vettvang. Varðstjóri segir í samtali við mbl.is að íbúarnir, einn karlmaður og tvær konur, hafi sloppið með naumindum út úr íbúðinni. Það fór síðan á slysadeild vegna gruns um reykeitrun.

Varðstjórinn segir það hafa vakið athygli slökkviliðsins að enginn reykskynjari hafi verið inni í íbúðinni, en sem betur fer náði hundurinn að vekja íbúana og bjarga þeim.

Tveir reykkafarar voru sendir inn í íbúðina og kom í ljós að eldur logaði inni á baðherbergi. Þeir náðu að ráða niðurlögum eldsins fljótt, en íbúðin er hins vegar mikið skemmd. Tildrögin eru óljós á þessari stundu og er rannsókn málsins í höndum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Mikill reykur myndaðist sömuleiðis og voru nærliggjandi íbúðir rýmdar á meðan slökkviliðið athafnaði sig á vettvangi. Aðgerðir slökkviliðsins stóðu yfir í tæpa klukkustund. Aðrir íbúar gátu svo snúið aftur í sínar íbúðir, en sem fyrr segir er íbúðin sem eldurinn kviknaði í mikið skemmd og varð heimilisfólkið að sofa annars staðar í nótt.

Varðstjórinn tekur fram að mikil mildi að ekki hafi farið verr og það sé algjörlega hundinum að þakka að fólkið vaknaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert