Heilt klapplið sem vonar að illa gangi

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Staðreyndin er sú að stjórnarsamstarf er ekki ólíkt hjónabandi. Þar koma saman tveir ólíkir einstaklingar sem ætla að vera saman, en sameinast ekki í einn einstakling. Forsenda hjónabandsins er virðing og vilji til að leysa málin sameiginlega. Það breytir því ekki að parið getur haft ólíka sýn.“

Þetta segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, á heimasíðu sinni í dag þar sem hún gerir stjórnarsamstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að umfjöllunarefni sínu vegna umræðu um það. Hún segist til dæmis stundum klóra sér í kollinum vegna áherslu sjálfstæðismanna á að lækka alla skatta. Auðlegðarskatturinn sé ágætt dæmi sem ekki standi til að framlengja.

„Ég tel lækkun ýmissa annarra skatta henta betur til að auka verðmætasköpun í samfélaginu en ég skil ómöguleika sjálfstæðismanna í að viðhalda skattinum. Það væri einfaldlega gegn því sem þeir standa fyrir. Því sem þeir ályktuðu. Ég veit að þeir velta stundum vöngum yfir áherslum samvinnu- og framsóknarmanna, en sem hluti af „hjónabandinu“ hlusta þeir og virða afstöðu okkar á grunni stjórnarsáttmálans. Því sem við lofuðum. Því sem við ályktuðum.“

Þá séu samskiptin á milli formanna stjórnarflokkanna, upphafsmanna hjónabandsins, góð að hennar sögn. Hins vegar sé ákveðinn munur á ríkisstjórnarsamstarfi og hjónabandi: „Munurinn á stjórnarsamstarfi og hjónabandi er kannski sá að í flestum hjónaböndum er ekki heilt klapplið fyrir því að illa gangi. Þar sem menn jafnvel vona að illa gangi. Geta fyllt heila þætti og leiðarasíður dagblaða á grunni þeirrar vonar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert