Strandaglópar í Kerlingarfjöllum

Fjallahjólahópurinn var tilbúin í ýmsar aðstæður en á endanum reyndist …
Fjallahjólahópurinn var tilbúin í ýmsar aðstæður en á endanum reyndist vindurinn svo mikill að varla er stætt úti. Ljósmynd/Burkni Helgason

„Hér er aftakaslæmt vetrarveður og bylmingsvindur. Það er varla stætt úti,“ segir Burkni Helgason, einn 25 hjólagarpa sem bíða þess að verða sóttir í Kerlingarfjöll. Annar bíll hópsins bilaði í gær og tókst þeim því ekki að komast til byggða áður en ófært varð vegna fárviðris. Vindur er þar mestur á landinu í dag.

Hópurinn fór úr bænum á föstudag en til stóð að hjóla hringinn í kringum Kerlingarfjöllin á tveimur dögum og koma aftur til byggða á sunnudagskvöld. Lítið varð hins vegar um hjólreiðar vegna veðursins og nú er farið að ganga á vistir hópsins.

Allt fokið nema vindmælirinn?

Á svæðinu hefur verið mestur vindur á landinu í dag. Samkvæmt óyfirförnum niðurstöðum úr sjálfvirkri veðurstöð í Setrinu mældist vindhraðinn 68 m/s klukkan tvö í nótt og allt að 103 m/s um hádegi í dag. Aðspurður segir Burkni að húsin í Kerlingarfjöllum virðist standa vindinn af sér enda sér þar vel frá öllu gengið.

„En ég þori ekki að ábyrgjast með Setrið. Menn leiða líkur að því að þar sé ekkert eftir annað en vindmælirinn,“ segir hann og hlær. Ansi vetrarlegt er um að litast í Kerlingarfjöllum en Burkni segir þó ekki mikinn snjó. „Það er aðallega gríðarlegt fjúk. Það hefur ekki verið mikil úrkoma, en vegurinn er ýmist auður eða á kafi í sköflum.“

Trukkur á leiðinni að sækja þá

Veðrið hefur ekki beint verið hliðhollt hjólahópnum. Upphaflega stóð til að ferðin yrði farin í ágústlok, en henni var þá frestað vegna viðvörunar um norðanskot sem síðan varð mildara en horfur voru á.

Ákveðið var því að láta verða af ferðinni núna, þrátt fyrir dræma spá, en ekkert varð hins vegar úr því að hringurinn væri hjólaður því veðrið versnaði hraðar en gert var ráð fyrir.

„Við náðum bara einum hjóladegi,“ segir Burkni. „Svo stóð til að koma í bæinn í gær, en þá komum við bílnum ekki í gang og náðum því ekki að vera á undan veðrinu. Menn eru orðnir hættulega lágir í vistum núna en það er á leiðinni einhver 30 manna trukkur að sækja okkur. Við vonum að það náist á þessum almanaksdegi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert