Fólk fái ekki leiðrétt tvisvar sinnum

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég man eftir því að hafa fengið þá spurningu áður á fundum í aðdraganda kosninga. Þá svaraði ég á þá leið að mér þætti réttlátt að menn nytu ekki tvisvar sinnum leiðréttingar heldur væri þetta hugsað til þess að jafna aðstöðu manna,“ sagði Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hann svaraði fyrirspurn frá Helga Hjörvari, þingmanni Samfylkingarinnar.

„Ég veit að það hefur vakið þær áhyggjur hjá fólki að hugsanlega standi til að draga frá skuldaleiðréttingum þær leiðréttingar sem fólkið hefur þegar notið, t.d. í 110%-leiðinni eða í öðrum sérstökum aðgerðum gagnvart skuldugu fólki. Það er auðvitað mikið grundvallaratriði og ég veit að við eigum ekki von á útfærslunum fyrr en í nóvember næstkomandi. En þessi grundvallaratriði hljóta þó að liggja fyrir, hvort ætlunin er að leiðrétta almennt fyrir verðbólguskotinu 2007–2010, eins og segir í stjórnarsáttmálanum, eða hvort reikna á út það áfall og draga síðan frá þær aðgerðir sem fólk hefur þegar notið þannig að ýmsir, t.d. sem fengið hafa skuldaúrræði í 110%-leiðinni, fengju ekki neitt út úr þessum leiðréttingum,“ sagði Helgi og spurði hver skoðun Frosta væri á þessu.

„Sumir hafa lent í því að fá leiðréttingu fyrir dómstólum, fyrir héraðsdómi og Hæstaréttar, af því að þeir voru með ólögleg lán. Vilja menn innifela þá líka, að þeir fái líka lækkun? Að sjálfsögðu ekki, þarna er verið að reyna að jafna leikinn. Hafi menn þegar fengið einhverja leiðréttingu á forsendubrestinum þurfa þeir ekki að fá hana aftur, það er mín afstaða. Ég vil ekki grípa fram fyrir hendur nefndarinnar eða störf þingsins. Við munum taka afstöðu til allra þessara tillagna þegar þær koma til þingsins,“ sagði Frosti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert