Stal vopnum, klæðnaði og skáldsögu

Matthías Máni Erlingsson braust inn í 3 sumarbústaði og bjó …
Matthías Máni Erlingsson braust inn í 3 sumarbústaði og bjó sig vel með ýmsu þýfi á meðan hann var á flótta undan réttvísinni.

Matthías Máni Erlingsson játaði í dag sök í máli sýslumannsins á Selfossi gegn honum vegna innbrota og þjófnaða sem hann framdi á meðan hann var á flótta, eftir strok frá Litla-Hrauni á aðventunni í fyrra.

Matthías Máni strauk frá Litla-Hrauni þann 17. desember. Fram kemur í ákæruskjalinu að síðdegis sama dag braust hann inn í fyrsta sumarbústaðinn, við Neistastaði í Flóahreppi, með því að snúa í sundur hurðalæsingu. Þaðan stal hann fatnaði, m.a. reiðbuxum, kuldagalla, kuldaskóm, úlpu og ullarsokkum.

Á sama stað fór hann inn í vélageymslu og tók þar fjórhjól traustataki sem hann ók þá um nóttina austur Suðurlandsveg um Skálholt og að Laugarvatni, þar sem hann stansaði skamma stund áður en hann hélt aftur austur að Geysi og yfir Brúarhlöð niður í Hrunamannahrepp.

Þar varð fjórhjólið eldsneytislaust og skildi Matthías Máni það eftir en faldi lyklana.

Dvaldi fimm sólarhringa í sumarbústöðum

Skömmu síðar braust hann inn í annan sumarbústað, í landi Reykjadals í Hrunamannahreppi, með því að brjóta rúðu í svalahurð. Matthías Máni hafðist við í bústaðnum í þrjá sólarhringa, nýtti sér húsmuni þar og stal ýmsum matvælum auk einnar skáldsögu.

Ekki kemur fram í ákæruskjali hvaða skáldsögu Matthías Máni stal á flóttanum. 

Í þriðja sumarbústaðnum þar sem hann braust inn kom Matthías Máni höndum yfir haglabyssu og riffil, kíki, landakort, snæri, vasaljós, exi, verkfæri, úlpu, bakpoka og kaffibrúsa, auk matar. Hann dvaldi þar í tvo sólarhringa.

Munu þetta vera vopnin sem Matthías Máni bar þegar hann gaf sig fram að morgni aðfangadags á bænum Ásólfsstöðum í Þjórsárdal. Eins og frægt er orðið bauð bóndinn þar honum og bæ og gaf honum heitt að drekka, að því tilskyldu að Matthías Máni skildi vopninn eftir fyrir utan.

Matthías Máni játaði sök, að sögn verjanda hans. Ákæruvaldið krefst þess að hann verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert