Aðgengi víða brösótt í miðbænum

Jóni Gnarr rétt hjálparhönd á Laugaveginum.
Jóni Gnarr rétt hjálparhönd á Laugaveginum. Ómar Óskarsson

Jón Gnarr, borgarstjóri og Edda Heiðrún Backman fóru um Laugaveginn í dag í miðborg Reykjavíkur til þess að vekja athygli á aðgengismálum fatlaðra í miðborginni. Jón ferðaðist um á rafknúnum hjólastól ásamt Eddu Heiðrúnu en auk þerra voru með í för fulltrúar frá Sindrastáli og Eirberg til þess að kynna fyrir búðareigendum lausnir til að bæta aðgengi fatlaðs fólks. 

Lausnirnar oft einfaldar

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar var með í för og segir hann aðgengi víða hafa verið brösótt. „Það eru ekki margar búðir sem hafa gott aðgengi, en þær eru nokkrar þar sem hægt er að komast inn án vandræða. Oft eru það bara litlir þröskuldar sem standa í vegi hjólastólanna.“

Bjarni segir búðareigendur hafa tekið vel í heimsókn þeirra Jóns og Eddu Heiðrúnar. „Búðareigendurnir voru mjög jákvæðir. Þeim leist líka vel á lausnirnar sem kynntar voru og að hægt sé jafnvel að sameinast um þær. Lausnirnar eru það einfaldar að það er í rauninni hægt að hafa þær á bakvið hurð og taka hana fram þegar hennar er þörf. Jafnvel er hægt að hlaupa yfir götuna og fá lánað frá öðrum verslunum.“

Aðgengið á Laugaveginum sjálfum er að sögn Bjarna víðast hvar í lagi. „Það má samt alltaf bæta, til dæmis með því að láta gangstéttarkanta halla upp að búðarinngöngum. Borgin er að skoða þessu mál, hvernig má bæta úr Laugaveginum og þá verða þessi aðgengismál skoðuð í leiðinni,“ segir Bjarni. 

mbl.is