„Vissulega hefur fennt í sporin en tengsl okkar Íslendinga við frændfólk okkar í Vesturheimi verða þó til staðar svo lengi sem rækt er við þau lögð. Margir voru fullir efasemda þegar starfsemi hér hófst fyrir sautján árum en áhuginn reyndist svo sannarlega til staðar þegar að var gætt,“ segir Valgeir Þorvaldsson, forstöðumaður Vesturfarasetursins á Hofsósi.
Starfsemi Vesturfarasetursins hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum; bæði sýningarhaldi auk þess sem gestum fjölgar jafnt og þétt. Í ár voru gestirnir um 8.000 og telur Valgeir að nærri láti að helmingur þeirra sé Vestur-Íslendingar sem hingað koma til að kanna rætur sínar og slóðir forfeðra.
Talið er að rösklega 16 þúsund manns hafi flutt frá Íslandi til Vesturheims á árunum 1870 til 1914. Segja má að flutningar þessir hafi byrjað árið 1873, en þá hélt allstór hópur fólks til að mynda úr Bárðardal og Vopnafirði til Brasilíu. Um svipað leyti fóru Íslendingar svo að flykkjast til Kanada, þaðan sem sendir voru agentar sem kynntu fólki fagra framtíð í fjarskanum. Margir þekktust boðið, ekki síst fólk af Norður- og Austurlandi. Þetta voru erfiðir tímar nyrðra; um langt skeið á síðari hluta 19. aldarinnar lagðist hafís á hverju ári að landinu og Öskjugosinu árið 1875 fylgdi öskufall og búsifjar. Margir kusu því að róa á ný mið.
„Þetta var hrun, kannski á einhvern hátt hliðstætt því sem hér varð fyrir fáum árum,“ segir Valgeir sem á stóran frændgarð í Kanada – og hefur raunar látið svo ummælt að litlu hafi munað að hann yrði Vestur-Íslendingur.
Flestir Íslendinganna fluttust til Kanada og árið 1875 fengu þeir að stofna eins konar sjálfstjórnarnýlendu við Winnipegvatn, það er Nýja-Ísland. Síðar urðu þessar slóðir hluti af Manitoba-ríki og þar er mikill fjöldi fólks af íslenskum ættum eins og raunar víðar í Kanada og nálægum ríkjum Bandaríkjanna, svo sem Minnesota og Norður- og Suður-Dakota.