„Kolólöglegt athæfi“ - býst við að málið verði kært

Brot úr myndskeiðinu.
Brot úr myndskeiðinu.

„Við fáum ekki betur séð en að þarna sé - því miður - um kolólöglegt athæfi að ræða; akstur utan vega sem er lögbrot,“ segir Andrés Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins, um auglýsingu sem var tekin upp hér á landi fyrir bandaríska fyrirtækið American Expedition Vehicles.

Andrés telur víst að málið verði kært, en það verður líklega gert af hálfu Umhverfisstofnunar.

Auglýsingin var tekin upp hér á landi í fyrra og hefur hún verið birt á netinu, en lagið „Your Bones“, með íslensku hljómsveitina Of Monsters and Men, hljómar undir.

Ísland kynnt sem landið þar sem allt er leyfilegt

„Því miður er Ísland í vaxandi mæli kynnt sem landið þar sem allt má. Þetta er bara ólíðandi; við þurfum að vanda okkur í því hvers konar ferðamennsku við viljum sjá,“ segir Andrés.

„Við erum að sjá svo hrikaleg dæmi um utanvegaakstur víða á landinu.“ Aðspurður segir Andrés að víða megi sjá ljót sár eftir slíkan akstur, t.d. þar sem menn aka út af vegum og inn á sanda. „Eins og gert er í þessu myndbandi til dæmis.“

Andrés segir ljóst að auglýsingin fyrir AEV hafi verið tekin upp á mörgum stöðum, m.a. í grennd við Heklu.

„Með þessu er raunverulega verið að auglýsa Ísland sem leikvöll,“ bætir hann við og segir að slíkt athæfi myndi varða háum sektum eða jafnvel fangelsi í öðrum löndum. 

Fólk verður að vera meðvitaðra um það sem má og má ekki

Andrés segir mikilvægt að gera þá sem aðstoða við gerð auglýsinga hér á landi betur meðvitaða um hvað megi og hvað megi ekki hér á landi. „Líka siðferðilegu hliðina í sambandi við umgengni okkar um landið.“ 

Aðspurður segist Andrés ekki vita hverjir aðstoðuðu við gerð auglýsingarinnar hér á landi, en hann bætir við að vandinn liggi í umhverfisvitund þeirra Íslendinga sem taki þátt í svona löguðu. 

Spurður út í hegðun íslenskra ökumanna segir Andrés: „Það varð gerð rannsókn fyrir um það bil ári síðan á viðhorfum Íslendinga til aksturs utan vega. Þar kom fram að það væri nú talsvert mikið um hann og fólk hafði ýmist ekið sjálft [utan vegar] eða vissi um einhverja sem höfðu stundað slíkt,“ segir Andrés.

Hvað varðar erlenda ferðamenn þá segir hann að það sé algengt að þeir stundi þessa iðju. Öll umhverfisvernd á Íslandi standi mjög veikt gagnvart þeim fjölda ferðamanna sem komi hingað til lands. „Það er mikið verið að gera en lítið miðað við þá holskeflu sem dynur yfir.“

Þeir sem gerast sekir um akstur utan vega mega búast við háum fjársektum.

mbl.is

Bloggað um fréttina