Brýrnar formlega teknar í notkun

Frá opnuninni í morgun.
Frá opnuninni í morgun. Mbl.is/Árni Sæberg

Nýjar göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa voru formlega teknar í notkun í morgun þegar Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og Hreinn Haraldsson, vegamálastjori, opnuðu nýju hjóla- og gönguleiðina formlega.

Brýrnar eru öruggar með aðskilda stíga og stytta leiðina á milli Grafarvogs og miðborgar um 0,7 km. Leiðin er upplýst með lýsingu í brúarhandriðum. Stígurinn er stofnstígur og því í forgangi þegar kemur að snjóhreinsun og hálkuvörnum í vetur, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Brýrnar byggja á vinningstillögu í samkeppni sem Reykjavíkurborg og Vegagerðin efndu til í desember 2011. Burðarvirki brúanna er 18 m hár þríhyrndur píramídi. Hönnunar- og framkvæmdarkostnaður við brýrnar var 250 milljónir króna og skiptist hann jafnt á milli Vegagerðar og Reykjavíkurborgar. 

Opnun brúarinnar er einn viðburða Samgönguviku, en markmiðið með henni er að hvetja til umhugsunar um ferðavenjur og fjölga þeim sem ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert