Í vonlausri baráttu á húsnæðismarkaði

Ingibjörg Ósk Elíasdóttir
Ingibjörg Ósk Elíasdóttir mbl.is/Rósa Braga

„Það eina sem ég veit er að 1. nóvember fer ég út á götu og veit ekki hvað tekur við,“ segir Ingibjörg Ósk Elíasdóttir, þriggja barna móðir sem er á hrakhólum á húsnæðismarkaði. Yfir 500 manns eru skilgreind í brýnni þörf á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Ingibjörg er þar á meðal og mætir miklu úrræðaleysi í kerfinu.

„Þetta er ekki óskastaða hjá neinum,“ segir Ingibjörg. Fyrir tveimur árum skildi hún við manninn sinn og hefur síðan búið með dætrunum tveimur, 6 og 16 ára, í tveggja herbergja íbúð sem var í eigu ættingja. Íbúðin hefur nú verið seld vegna skiptingar á dánarbúi og verður afhent um mánaðamót október/nóvember.

Öll úrræði fullnýtt

Sonur Ingibjargar, 13 ára, glímir við alvarlega geðfötlun og er nú í meðferð á vistheimili en veikindi hans setja fjölskyldunni þröngar skorður þegar kemur að húsnæði. 

„Þegar þú átt barn með fötlun sem er erfitt að fá viðurkennda í kerfinu þá þarftu að ganga langt á öll þau úrræði sem þú hefur,“ segir Ingibjörg.

„Og allt í einu er komin upp sú staða að þú ert í vonlausri baráttu: Þú getur ekki fengið lán fyrir húnsæði en gætir heldur ekki staðið undir því að leigja venjulega íbúð á frjálsum markaði, þótt hún væri lítil. Og þú kemst ekki að í þessu félagslega kerfi, sem á að hjálpa þeim sem eru illa staddir.“

Hundruð manna í brýnni þörf

Allt frá skilnaðinum hefur Ingibjörg verið á biðlista hjá Reykjavíkurborg eftir félagslegu húsnæði en ekkert gengið. Biðlistar hafa verið að lengjast frá árinu 2010. Samkvæmt upplýsingum frá Félagsbústöðum, sem reka félagslegt leiguhúsnæði borgarinnar, eru nú 809 manns á biðlista og þar af eru 523 skilgreindir í brýnni þörf.

Mörghundruð manns eru því á hrakhólum í höfuðborginni. Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum búa sumir þröngt í ósamþykktu og óvistlegu húsnæði, aðrir eru upp á ættingja komnir. 

„Ég er komin á það stig að hafa hugleitt að spyrja félagsfulltrúann minn hvort þau bjóði manni upp á að vera í gistiskýli. Það er ekki auðvelt að troða sér upp á fólk með tvö börn, eða tvö og hálft barn, því þótt sonur minn búi ekki hjá mér sem stendur er ég samt móðir hans og þarf að annast hann,“ segir Ingibjörg.

Skelfilegt að bjóða barni upp á þetta

Almennt er þörfin mest eftir 1-2 herbergja íbúðum, en Ingibjörg er í þeim hópi sem vegna fjölskylduhaga þarf á stærra húsnæði að halda. „[Félagsmálayfirvöld] vilja í raun ekki bjóða mér minna en 4 herbergja íbúð, og ég ætti tæknilega séð að vera skráð fyrir 5 herbergja, en ég sé ekki fram á að geta greitt svo mikinn kostnað. Persónulega myndi ég sætta mig við að fara í þriggja herbergja íbúð frekar en að enda á götunni,“ segir Ingibjörg.

„Staðan er það alvarleg í dag að [sonurinn] getur ekki komið heim til mín nema í fylgd starfsmanns, en þar sem við stelpurnar mínum búum þannig að við erum hver ofan á annarri og ein í stofunni, þá get ég ekki boðið þeim upp á að hann sé heima með ókunnugum manni í þeirra litlu svefn- og lærdómsaðstöðu. Þannig að hann getur takmarkað komið heim til sín, og það er skelfilegt að bjóða barni upp á þessar aðstæður.“

Ingibjörg segir markmiðið að sjálfsögðu vera að sonur hennar geti flutt aftur inn á heimilið að lokinni meðferð. Það verði þó ekki hægt án húsnæðis við hæfi. Hún segist efast um að hún hefði þurft að bíða svona lengi ef sonur hennar væri í hjólastól. 

„Barnið er engu að síður með fötlun, þótt það sjáist ekki utan á honum. Geðfatlanir eru lítt viðurkenndur flokkur og lítil hjálp í boði, en það er opinberlega viðurkennt að ég get ekki boðið honum upp á að vera á flækingi, að flytja á árs fresti. Hann verður að vera í stabílu húsnæði og ég hef ekkert val annað en félagslega kerfið.“

Vita ekki hvar þær enda næst

Staða dætra hennar er Ingibjörgu ekki síður áhyggjuefni. „Jafnvel þótt þú sért ekki með veikt barn þá er takmarkað hvað hægt er að bjóða börnum upp á að skipta um skóla og flytja milli hverfa. Ég vil ekki raska skólanum þeirra líka, það er nógu erfitt með annað í þeirra lífi.“

Íbúðin sem mæðgurnar munu senn missa er í Breiðholtinu, en þangað til í vor sóttu systurnar leik- og grunnskóla í gamla hverfinu sínu í Grafarvogi. Dvalarheimili drengsins er svo í Hafnarfirði.  Undanfarin tvö ár hafa því einkennst af skutli milli borgarhluta svo Ingibjörg segir ekki annað í boði en að eiga og reka bíl til að komast á milli staða.

Þær vita ekki hvar þær enda næst. „Við fáum ekki að velja hverfi, ef það kemur að því að við fáum félagslegt húsnæði þá verðum við bara að taka það sem býðst. Við gætum þurft að flytja á glænýjan stað og byrja alveg upp á nýtt.“

Ingibjörg segist hafa áhyggjur af því að eldri dóttir hennar gefist upp og hrekjist út í að flytja að heiman á unga aldri vegna aðstæðna þeirra. 

„Þetta er basl þótt það sé allt í góðu lagi, en ef þú lendir í erfiðum aðstæðum er það ómögulegt. Þetta er ekki eitthvað sem maður ætlaði að koma sér í, en stundum æxlast hlutirnir þannig að þú hefur lítið val og manni finnst að kerfið verði að geta brugðist við svona.“

Vonlitlir kerfisstarfsmenn

Ingibjörg segist upplifa kerfið sem ráðalaust á fleiri en einu sviði, enda sé hún ekki aðeins að heyja húsnæðisbaráttu heldur einnig baráttu fyrir velferð andlega veiks barns. Hún segist þó ekki vilja setja út á neinn ákveðinn þátt í kerfinu.

„Það er fullt af góðu fólki sem vinnur að þessum málum og er allt af vilja gert en orðið uppfullt af vonleysi. Maður hittir alls konar ráðgjafa frá hinum á þessum stöðum sem eru þreytulegir, gráir og guggnir og maður fær bara sting í hjartað. Það hlýtur að vera skelfileg aðstaða fyrir starfsmenn að reyna og reyna en geta ekki hjálpað fólki.“

Aðspurð um þær tillögur til úrbóta á leigumarkaði sem nú eru til umræði á Alþingi segist Ingibjörg vonast til að umræðan dagi ekki uppi í nefnd heldur verði eitthvað gert.

„Það er langt síðan hefði átt að vera búið að taka þessi mál fastari tökum, því jafnvel þótt það komi núna ákvörðun um að gera eitthvað, þá tekur það mánuði og ár að komast í gagnið. En það er ekki hægt að bjóða íslenskum almenningi upp á þetta. Það er eitthvað sérkennilegt að fólk í algjörri neyð bíði og bíði, jafnvel árum saman, eftir húsnæði. Það getur ekki talist eðlilegt.“

Mikill skortur er á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og mest er …
Mikill skortur er á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og mest er þörfin eftir 1-2 herbergja íbúðum. mbl.is/Golli
mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert