Viðurkenndi galla á rannsókn

Komið með Börk Birgisson í Hæstarétt í morgun.
Komið með Börk Birgisson í Hæstarétt í morgun. mbl.is

Saksóknari viðurkenndi fyrir Hæstarétti í dag að rannsókn lögreglu í máli ákæruvaldsins á hendur Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni hefði ekki verið gallalaus. Hann tók einnig undir athugasemdir verjenda um að samantektir lögreglu úr skýrslutökum hefðu ekki verið nægjanlega nákvæmar.

Annþór og Börkur mættu fyrir Hæstarétt í morgun þegar mál á hendur þeim var tekið fyrir. Þeir voru ákærðir fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir, ólögmæta nauðung, frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgunar og hlutu sjö og sex ára fangelsi fyrir.

Eins og ævinlega þegar þeir félagar koma fyrir dóm var lögregla með mikinn viðbúnað. Þannig fengu þeir ekki að sitja saman heldur voru lögreglumenn á milli þeirra og einnig beggja vegna. Þá voru fleiri lögreglumenn í dómsalnum. Í upphafi voru einnig óeinkennisklæddir lögreglumenn í salnum en hugsanlegt er að þeir hafi aðeins verið áhugasamir. Fleiri voru áhugasamir um málið, ríkissaksóknari og tveir saksóknara hjá ríkissaksóknara voru á meðal áhorfenda.

Það er skemmst að segja frá því að ekkert óvænt kom upp og Annþór og Börkur líkastir kórdrengjum þar sem þeir fylgdust með málflutningi. Börkur hélt hins vegar uppi skilti sem hann bjó til þar sem á stóð: „Sekur uns sakleysi er sannað?“

Sköflungsbein fórnarlambsins brotið

Saksóknari hóf málflutninginn og fór fram á Hæstiréttur þyngi refsingu þeirra. Hann fór í fyrstu yfir ákærulið 1 en lesa má ítarlega lýsingu mbl.is á því þegar farið var í gegnum hann við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur hér. Í þessari grein verður einnig að aðeins farið yfir þennan ákærulið en umfjöllun um ákæruliði 2 og 4 verða birtir á mbl.is síðar í dag.

Í ákærulið 1 var níu karlmönnum gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa að kvöldi 4. janúar 2012 í íbúð í Mosfellsbæ veist að fjórum mönnum. Í ákæru segir að mennirnir hafi sameiginlega tekið ákvörðun um að fara þangað vopnum búnir. Fyrstir inn í húsið hafi farið Annþór og Börkur, en þeim var boðið inn af húsráðanda. Á meðan biðu hinir fyrir utan.

Annþór hafi svo gefið hinum merki um inngöngu og þeir farið inn í heimildarleysi. Þar hafi þeir veist að húsráðanda og öðrum með hættulegum vopnum og bareflum, þar á meðal sleggju, handlóðum og golfkylfum.

Húsráðandi hlaut við þetta þverbrot í gegnum nærhluta sköflungsbeins hægri fótleggs og opinn skurð á framanverðum sköflungi, brot á hægri hnéskel og fjölda annarra áverka. Aðrir hlutu minni áverka.

Einn sakborningur bar sakir á Börk

Saksóknari sagði framburð [k], eins þeirra sem dæmdur var fyrir árásina, hjá lögreglu afar mikilvægan. Þá sagðist hann hafa séð Börk ráðast á húsráðanda, [BM]. Maðurinn breytti framburði sínum þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi og sagðist hafa logið til að losna úr gæsluvarðhaldi auk þess sem lögregla hefði lagt honum orð í munn. Saksóknari sagði hins vegar ljóst þegar skýrslutakan hjá lögreglu er skoðuð að [K] var sáttur þegar hann gaf skýrsluna og tók sér meira að segja hlé til að ræða við verjanda sinn í gegnum síma. Í næstu skýrslutöku hafi hann svo staðfest það sem hann sagði. Á framburðinum beri því að byggja í málinu, eins og héraðsdómur raunar gerði.

„Framburður [K] er mikilvægur því hann ber sakir á Börk. [...] Hann er eini sakborningurinn sem ber sakir á Börk og Annþór einnig. Aðrir sakborningar gáfu ekkert út um þá og gáfu samræmdan framburð fyrir dómi,“ sagði saksóknari.

Þá fór hann yfir símagögn og sagði þau augljóslega sýna tengsl milli Annþórs og hinna mannanna sem sakfelldir voru. Það hafi verið símasamskipti áður en þeir fóru inn í húsið og einnig eftir að Annþór fór inn.

Ennfremur séu til upptökur úr myndavélakerfi hússins við hliðina á hús [BM]. Þó svo ekki sé hægt að greina nákvæmlega andlit megi sjá á upptökunum að tveir menn gangi inni í húsið, nokkrar mínútur líði og svo fari hópurinn inn.

Saksóknari sagði þá að þó svo hugsanlegt væri að Annþór og Börkur hefðu verið í öðrum erindagjörðum væri ljóst að tengsl væru á milli þeirra og hópsins sem kom inn á eftir. Og þá verði að líta til þess að þeir tjáðu sig ekki um málið í skýrslutökum hjá lögreglu og í fyrsta skipti eftir að þeir sáu öll gögn málsins.

Jafnframt sagði hann að framburður Annþórs og Barkar um að þeir hafi ætlað að innheimta skuld hjá húsráðanda sé einkennileg, en um hafi verið að ræða 50 þúsund krónur. „Er þetta upphæð sem krefur þess að hún sé rukkuð í þessum flýti? Af hverju lá svona á? Það má færa rök fyrir því að þarna hafi verið um að ræða átyllu, menn hafi gert sér upp átyllu til að komast inn í húsnæðið. Þeir hafi gert sér upp erindi, kannað aðstæður og hleypt mönnum inn.“

Heimilt að koma inn eða ekki?

Saksóknari fór svo yfir kröfu verjanda Annþórs um að húsráðandinn gæfi nýja skýrslu fyrir héraðsdómi. Var það gert fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Þar sagðist húsráðandinn hafa verið undir áhrifum fíkniefna þegar hann gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. „En þegar þessi nýi framburður er skoðaður sést að þetta eru atriði sem skipta ekki máli. Það getur vel verið að hann hafi samþykkt að hleypa þessum mönnum inn en það er ekkert sem segir að hann hefði gert það ef hann vissi hvað stæði til og hversu margir þeir voru.“

Þessi málflutningur er í samræmi við orðalag í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness þar sem segir: „Ákærðu [S] og Annþór bera að [BM] hafi heimilað inngöngu annarra ákærðu og Annþór með samþykki [BM] opnað útidyrnar. Gegn mótmælum vitnisins [BM] og annarra vitna er ósannað að svo hafi verið og telur dómurinn ólíklegt að vitnið [BM] hafi hleypt öðrum ákærðu inn til sín hefði hann vitað hversu margir þeir voru, í hvaða tilgangi þeir voru komnir og að þeir voru allir vopnaðir. Telur dómurinn að þáttur ákærða Annþórs hafi verið nauðsynlegur í verknaðinum, meðal annars með því að vera undanfari, ráðfæra sig við aðra ákærðu áður en þeir komu á staðinn og láta síðan ákærða [S] vita hvenær þeir máttu koma inn og opna fyrir þeim.“

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Annþórs, fór yfir þetta sama atriði. Sagðist hann hafa farið fram á að tekin yrði önnur skýrsla af [BM] eftir að honum barst til eyrna að hann hefði gefið ranga skýrslu við aðalmeðferð málsins. Í nýju skýrslunni segir [BM] að hann hafi heimilað að mönnunum yrði hleypt inn í íbúð sína. „Þetta er mjög mikilvægt atriði vegna þess að héraðsdómur hafnaði því að þetta væri tilfellið. Hann hefði ekki heimilað að hleypa þeim inn.“

Hann sagði að [BM] hefði einnig staðfest að Annþór beitti ekki neinu ofbeldi og að árásin hefði ekki verið skipulögð af Annþóri og Berki.

Hótanir ekki rannsakaðar

Sveinn Andri fór fram á að dómurinn yrði ómerktur, en til vara að Annþór yrði sýknaður eða refsing felld niður. Hann gerði miklar athugasemdir við rannsóknaraðgerðir lögreglunnar og sagði byggt á því að lögregla hefði ekki fylgt skyldu sinni um að gæta bæði til atriða sem horfðu til sýknu og sektar. Rannsóknin hefði snúist um að hvetja vitni til að leggja fram kærur og færa sönnur á sekt Annþórs og Barkar. Annað hefði verið aukaatriði.

Þá sagði hann að samantektum lögreglu upp úr skýrslutökum hefði verið stórkostlega ábótavant, því sleppt sem horfði til sýknu og orðalagi breytt sakborningum í óhag. Þá hefðu rannsakendur gert eigin skýrslur um að vitni og aðrir sakborningar hefðu sætt hótunum. Meira hefði hins vegar ekki verið fært fram og þessi atriði ekki rannsökuð.

Sveinn Andri tók dæmi um brot lögreglumanna í skýrslutöku. Staðhæft hefði verið að Annþór og Börkur hefðu skipulagt árásina og spurt hvort [K] gæti ekki staðfest það. Hann sagði að varla væri hægt að ímynda sér grófara brot enda hefði ekkert legið fyrir um það þá - frekar en nú - að þeir hefðu skipulagt árásina. Og ekki nóg með spurninguna heldur hefði verið sleppt stórum hluta úr skýrslutökunni þegar kom að samantektinni. [K] hefði þannig sagt áður að hann gæti ekki sagt til um að Annþór og Börkur hefðu komið að skipulagningunni. Því hefði verið sleppt.

Hann spurði réttinn hvort hægt væri að fullyrða að Annþór og Börkur hefðu notið sanngjarnrar málsmeðferðar og sagðist standa við að svo væri ekki. Því færi víðsfjarri. Meira að segja í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness hefðu verið tekin út atriði til að rökstyðja sakfellingu en öðrum atriðum sleppt, þeim atriðum sem væru þeim til hagsbóta.

Þá byggðist dómurinn á hótunum sem voru ekki rannsakaðar og ekki var spurt út í þær við aðalmeðferðina. Þær voru engu að síður lagðar til grundvallar sem staðreynd.

Sveinn Andri sagði ljóst að Annþór og Börkur hefðu ekki komið að þessari líkamsárás með nokkrum hætti. Þeir hefðui vissulega komið á svæðið á sama tíma og hinir en hefðu ekki átt þátt í að skipuleggja árás, safna liði eða taka þátt í henni. Annþór hefði hleypt mönnunum inn en það hefði verið með leyfi húsráðanda.

Ekki megi rugla saman grun og sönnun

Jafnframt tók Sveinn Andri eitt atriði út. Það er að aðrir sakborningar tjáðu sig ekki um þátt Annþórs og Barkar í skýrslutökum hjá lögreglu en gerðu það fyrir dómi. Var þá framburður þeirra talinn ótrúverðugur. Hann spurði hvort framburðurinn fyrir dómi hefði þá verið talinn ótrúverðugur ef þeir hefðu borið gegn Annþóri og Berki.

Hann benti á að ekkert benti til að árásin væri tengd Annþóri og Berki og enginn hefði bendlað þá við skipulagningu. Héraðsdómur hefði byggt á því að þeir hefðu skipulagt atlöguna, liðsinnt meðákærðu og athugað hvort óhætt væri að koma inn, afvopnað menn auk þess sem nærvera Annþórs hefði verið hluti af árásinni þar sem hann veitti henni aukið vægi með nærveru sinni. Hann sagði ekkert liggja fyrir í málinu sem sannaði að þeir hefðu skipulagt árásina. Þó að það hefðu verið símasamskipti milli manna og þeir hefðu mætt á sama tíma þá væri það ekki sönnun. Ekki mætti rugla saman grun og sönnun.

Sveinn Andri sagðist ennfremur ekki vita hvernig hann ætti að svara því að sannað væri að Annþór hefði veitt liðsinni með því einu að vera á svæðinu. „Þetta er gjörsamlega galin fullyrðing.“ Hann sagði þvert á móti ýmislegt benda til gagnstæðrar niðurstöðu. Annþór og húsráðandi hefðu enda verið vinir á þessum tíma. „Það er staðfest að Annþór gerði ekkert í átökunum. Þá var hann kyrr á staðnum eftir að yfir lauk og lögregla mætti á vettvang. Það er ekki vísbending um slæma samvisku. Niðurstaðan er sú að ákærði Annþór Kristján var á staðnum þegar það brutust út slagsmál. Hann tók ekki þátt í þeim og hafði ekkert með undirbúning eða aðdraganda að gera. Það er ekki snefill af sönnunargögnum sem sýna fram á annað.“

Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar Birgissonar, hnykkti á nýju skýrslunni yfir [BM], húsráðandanum. Hann sagði [BM] hafa sagst hafa verið undir miklum þrýstingi frá lögreglu og undirheimunum um að gefa skýrslu gegn Annþóri og Berki. Þá hefði hann einnig haft áhrif á framburð annarra í málinu.

Sveinn tók fram að sömu kröfur væru gerðar af Berki og Annþóri, þ.e. að dómur yrði ómerktur en annar sýknað eða refsing felld niður. 

Vegna þess hversu stuttan tíma verjendur fengu fyrir Hæstarétti ákváðu þeir hins vegar að skipta málflutningi á milli sín og fjallaði Sveinn Andri því um 1. og 4. ákærulið en Sveinn um 2. ákærulið.

Engin meiriháttar mistök gerð

Saksóknari viðurkenndi í ræðu sinni að rannsókn lögreglu var ekki gallalaus. Hins vegar hefði hún ekki verið haldin slíkum annmörkum að það varðaði ómerkingu dómsins. Engin meiriháttar mistök hefðu verið gerð og engin meiriháttar gögn hefði vantað.

Hann tók undir það með verjendum að samantektir lögreglu af skýrslutökum hefðu ekki verið nægjanlega nákvæmar. Þess vegna hefði orðrétt endurrit verið lagt fram fyrir Hæstarétti. Það væri til að taka af allan vafa. Þá benti hann á að í forsendum Héraðsdóms Reykjaness kæmi fram að fjölskipaður héraðsdómur hefði horft á allar skýrslutökur í hljóði og mynd, allar 560 mínúturnar. Dómurinn hefði því ekki byggst á samantektunum. Það væru því litlar líkur á að ómerkja ætti dóminn eða sýkna.

Sveinn Andri ítrekaði hins vegar í lokaræðu sinni að Annþór hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar. „Það kann að stafa af því að hann er þekkt persóna í samfélaginu, menn hafa skoðanir á honum og um hann hefur verið fjallað mikið í fjölmiðlum. En dómstóll verður að geta híft sjálfan sig upp yfir daglegt þras og fjölmiðlaumfjöllun,“ sagði Sveinn Andri og hvatti dómara til að dæma með bundið fyrir augun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert