Bitist um íbúðir á okurverði

Árið 2003 sker sig nokkuð úr síðasta áratuginn vegna fjölda …
Árið 2003 sker sig nokkuð úr síðasta áratuginn vegna fjölda lítilla íbúða, en þá voru byggðar 210 tveggja herbergja íbúðir, flestar í Grafarholti. mbl.is/Sigurður Bogi

„Maður verður bara reiður þegar maður sér hvað fólk er að gera,“ segir ungur maður á þrítugsaldri sem er, líkt og svo margir aðrir, í leit að leiguíbúð fyrir einn.

Vöntun er á húsnæði fyrir einstaklinga og ungt fólk sem er að byrja að búa. Litlum íbúðum hefur fækkað hlutfallslega ef tekið er mið af fólksfjölgun, eins og rakið er hér til hliðar. Samkeppnin um litlar íbúðir er því hörð um þessar mundir og leiguverðið eftir því hátt.

Íbúð fyrir einn á 130 þúsund

Ungi maðurinn sem ræddi við mbl.is vill ekki koma fram undir nafni en er hér kallaður Halldór. Fyrir rúmu ári bjó Halldór einn í tæplega 40 fermetra íbúð og greiddi fyrir hana 75 þúsund krónur á mánuði. Hann stofnaði svo til sambúðar með kærustu sinni, en upp úr því slitnaði fyrir stuttu og er hann því aftur í húsnæðisleit.

Staðan sem blasir við honum á leigumarkaðinum er ekki beysin. Íbúðir sambærilegar við þá sem hann leigði í fyrra, eða verri, eru ekki í boði fyrir minna en 120-130 þúsund krónur á mánuði. 

Á núlli strax í upphafi mánaðar

„Ég geri alls ekki miklar kröfur og er bara að skoða litlar íbúðir, stúdíó- eða 2 herbergja, en sá markaður er mjög lítil. Það er eiginlega ekkert í boði nema stúdentagarðar,“ segir Halldór. Þar fær hann þó ekki inni enda er hann ekki í skóla heldur á vinnumarkaði. Mánaðarlaun hans eftir skatt eru um 190 þúsund krónur.

„Þetta myndi sleppa ef tveir væru að leigja saman, þótt það sé samt dýrt að borga 130 þúsund fyrir 40 fermetra íbúð, en fyrir eina manneskju er ekki hægt að standa undir þessu. Svo bætist við rekstur á bíl, tryggingar og matur. Þá ertu bara í núll krónum strax í upphafi mánaðarins,“ segir Halldór.

„Ofan á það biðja leigusalar líka um þriggja mánaða fyrirframgreiðslur og þessar upphæðir geta verið gígantískt háar, sem þýðir að maður þarf að taka lán sem maður getur varla borgað af því maður er þegar á núllinu.“

Engin sturta og sameiginlegt klósett

Þá er ástand margra íbúðanna heldur bágborið, miðað við verð. „Það er næstum því fyndið að sjá þessar íbúðir,“ segir Halldór. 

„Ég sá til dæmis eina sem var 38 fermetrar með sameiginlegu klósetti með næstu íbúð og þetta var á 120 þúsund á mánuði. Eða 25 fermetra íbúðir á 80 þúsund kall þar sem er ekki einu sinni sturta. Oft er þetta lélegt og ljótt húsnæði, en samt á stjarnfræðilegu verði. Maður verður bara reiður.“

Þrátt fyrir allt er samkeppnin svo hörð að setið er um þessar íbúðir. Halldór vaktar auglýsingavefina, bæði á mbl.is, bland.is og víðar og segist duglegur að senda út fyrirspurnir og meðmæli um leið og ný íbúð er auglýst.

„Ég hef ekki einu sinni fengið að skoða íbúð ennþá. Maður sér að á einum degi skoða 200-300 manns íbúðirnar og svo fær maður svar um að búið sé að leigja hana út. Jafnvel þótt ég hafi verið með þeim fyrstu til að senda fyrirspurn. Þetta sýnir hvað eftirspurnin er mikil og þá náttúrlega hækkar verðið,“ segir Halldór.

Neyðist til að taka það sem býðst

Hann segir augljóslega hálfgerð frumskógarlögmál í gangi á leigumarkaðinum. „Auðvitað vill maður helst fá að skoða íbúðina áður en maður segir já eða nei, en það er varla hægt því andrúmsloftið er þannig að fyrstur kemur, fyrstur fær. Fólk er jafnvel að taka íbúðir sem það hefur bara séð myndir af.“

Halldór segir sárt að sjá þetta leiguverð vitandi að ef hann gæti keypt sér litla íbúð væri raunhæft að afborganir af láni yrðu frá 60-90 þúsund krónur á mánuði.

„Ég veit ekki hvað ég á að gera. Eflaust kemur eitthvað ef ég bíð nógu lengi, en ég hef bara ekki val um það. Ég er í þeirri stöðu að ég verð að fara að taka einhverju og ég er alveg farinn að sætta mig við að það verði ekki undir 100 þúsund krónum á mánuði, en þessar íbúðir sem ég er að skoða á 120-130 þúsund krónur eru ekki þess virði og þýða bara að ég mun ekki eiga neina peninga eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert