Íslensk gestrisni heillar í Úganda

Díana Ellertsdóttir fyrir framan gistihús 2friends í Jinja, Úganda.
Díana Ellertsdóttir fyrir framan gistihús 2friends í Jinja, Úganda. mbl.is/Sunna

Árið 2000 ákvað Díana Ellertsdóttir að flytja til Úganda í Austur-Afríku. Hún hafði áður tekið sambærilega ákvörðun er hún flutti frá Íslandi til Svíþjóðar, þá um þrítugt og fjögurra barna einstæð móðir. Í dag rekur hún mjög vinsælan veitingastað, bar og gistihús í borginni Jinja við Nílarfljót. Það er alltaf mikið að gera hjá Díönu en þannig vill hún líka hafa það. Mikið annríki hefur verið hjá fjölskyldunni á þessu ári en tveir synir Díönu hafa nú einnig hafið rekstur hótels og gistiheimilis í Úganda.

Gistiheimili og veitingastaður Díönu í Jinja heitir 2friends. Í ágúst hóf sonur hennar, Donald Garðarsson, rekstur hótels og veitingastaðar með sama nafni, 2friends Beach Hotel, í borginni Entebbe við Viktoríuvatn og nálægt aðalflugvelli landsins. Rekur hann hótelið í samstarfi við Díönu og mann hennar. Elsti sonur Díönu, Ellert Baldvinsson, hefur svo frá því í apríl rekið gistihúsið Source of the Smile í Jinja.

Sundlaugargarðurinn við 2friends er góður staður til að slappa af. …
Sundlaugargarðurinn við 2friends er góður staður til að slappa af. Barinn er svo handan við hornið. mbl.is/Sunna

Einstæð móðir með fjóra syni

Díana ólst upp í Keflavík og bjó síðar m.a. í Vestmannaeyjum. Árið 1979 ákvað hún að flytja til Svíþjóðar með fjóra syni sína. Þar eignaðist hún svo dótturina Elínrós, sem er listamaður og hanga litrík málverk eftir hana uppi á gistihúsum og hótelum fjölskyldunnar í Úganda.

Díana kom fyrst til Jinja í janúar árið 2000. Þá hafði maður hennar, Jouko Tahvanainen, sem er rafmagnsverkfræðingur að mennt, fengið vinnu við orkuver á staðnum. Í fyrstu hafði Díana ætlað sér að vera heimavinnandi og slappa af eftir að hafa unnið mikið frá því hún var aðeins 12 ára gömul. Í Svíþjóð hafði hún fengist við ýmis störf, m.a. rekið kaffihús ásamt tveimur sonum sínum.

Sonur Díönu, Ellert Baldvinsson, rekur gistihús skammt frá 2friends. Það …
Sonur Díönu, Ellert Baldvinsson, rekur gistihús skammt frá 2friends. Það heitir Source of the Smile. Verk eftir Elínrós, dóttur Díönu, nýtur sín vel við barinn. mbl.is/Sunna

„Eftir tvo mánuði aðgerðalaus í Jinja var ég að tryllast, ég hafði enga eirð í mér og varð að hafa eitthvað meira fyrir stafni,“ segir Díana þegar hún rifjar fyrstu mánuðina í Úganda upp. Jouko hafði upphaflega fengið vinnu við orkuverið í eitt ár og þegar sá tími var liðinn sneru þau aftur til Svíþjóðar og héldu að Úgandaævintýrinu væri lokið. En svo kom fljótlega í ljós að meiri vinna var fyrir Jouko í Jinja og Díana segist hafa fagnað því og þegar ákveðið að opna þar veitingastað.

„Ég hafði oft farið út að borða í Jinja en maturinn var eins á öllum veitingahúsunum og ég hugsaði því fljótlega með mér að gaman væri að opna veitingastað og bjóða upp á öðruvísi mat.“

Einbeitti sér að garðinum og gleymdi eldhúsinu

Hún tók sér góðan tíma í að finna rétta staðinn fyrir veitingastaðinn. Þegar hún kom fyrst að lóðinni þar sem 2friends er í dag segist hún strax hafa séð möguleikana. „Það var þarna eitt hús og stór garður og ég sá fyrir mér að þarna gæti orðið góður staður fyrir veitingastaðinn. Í raun voru það möguleikarnir í garðinum sem heilluðu mig í fyrstu. Enda einbeitti ég mér mjög að honum, að gera hann hlýlegan og fallegan. Reyndar svo mikið að þegar við vorum að nálgast opnunardag áttaði ég mig á því að ég hafði næstum gleymt eldhúsinu!“ rifjar Díana upp og hlær að minningunni. Hún lenti þó ekki í neinum vanda vegna þessa, á staðnum var gamall pítsuofn sem þau notuðu fyrst í stað á meðan verið var að gera eldhúsið tilbúið.

Veitingastaðurinn er í dag einn sá allra vinsælasti í Jinja. Garðurinn sem Díana lagði svo mikla áherslu á er einstaklega fallegur, með stórum pálmatrjám, litríkum blómum og stígum úr fallegum steinhellum. Þegar kvölda tekur og engispretturnar fara að láta í sér heyra verður andrúmsloftið hreinlega töfrandi. Þetta, ásamt hinni íslensku gestrisni sem Díana er þekkt fyrir, er frjór jarðvegur fyrir góðar minningar.

Aðal barþjóninn á 2friends, Gotfrey, hefur starfað lengi við hlið …
Aðal barþjóninn á 2friends, Gotfrey, hefur starfað lengi við hlið Díönu. mbl.is/Sunna

Díana eða einhver á hennar vegum fer reglulega til höfuðborgarinnar Kampala til að kaupa besta hráefni sem völ er á til matreiðslunnar. Kjúklingur er keyptur í Jinja og sömuleiðis allur fiskur og er hann kominn á disk gesta veitingastaðarins sama dag og hann er dreginn úr Nílarfljóti.

Ætlaði aldrei að gefast upp

En var strax nóg að gera?

„Nei, langt frá því,“ viðurkennir Díana. „Fyrstu árin var lítið að gera. Fólk þekkti okkur ekki, við vorum ný hér. En ég ætlaði aldrei að gefast upp. Ég vissi að það tæki þrjú ár að byggja þetta upp. Að þeim árum liðnum var fólk farið að þekkja okkur og viðskiptin fóru að blómstra. En fyrstu árin hafði ég ekkert út úr þessu og þetta var töluvert basl. Ég vann auðvitað myrkranna á milli sjálf, gekk í öll störf. Þannig hef ég reyndar alltaf verið og þannig er það enn. En það er líka þannig sem ég vil hafa það, ég vil hafa nóg að gera. Þá líður mér best.“

Líkum Indverja kastað í Níl

Díana segir að bærinn Jinja hafi breyst mikið á þeim tæplega 14 árum sem hún hefur búið þar. Fyrir stjórnartíð hrottans Idis Amins var Jinja fallegur bær og þar var velmegun mikil miðað við önnur svæði í landinu. Þar eru enn reisuleg hús en mörg þeirra standa auð og eru í niðurníðslu. Skýringin er sú að fyrir Amin-tímabilið bjuggu margir Indverjar í Jinja og stunduðu verslun og viðskipti. Þegar Amin tók við völdum var það eitt af hans fyrstu verkum að reka alla Indverjana úr landi. Margir voru drepnir og líkunum kastað í Níl. Sagan segir að krókódílarnir í Nílarfljóti hafi orðið svo mannýgir á þessum árum að það þurfti að slátra þeim þegar Amin fór frá völdum. Þeir hafi verið aldir upp á mannakjöti. Sjálfur settist Amin að í Jinja er hann var og hét, enda gríðarlega falleg borg.

Byron undirbýr pítsu fyrir matargesti á 2friends.
Byron undirbýr pítsu fyrir matargesti á 2friends. mbl.is/Sunna

Bætti gistihúsinu við

Þegar rekstur veitingastaðarins 2friends var tekinn að blómstra ákvað Díana að bæta gistihúsi við. Hún leigði lóðina við hlið veitingastaðarins og hóf uppbygginguna. Í fyrstu var hún með sjö herbergi og segir sér hafa orðið það til happs að erlent fyrirtæki sem var í verkefni í Jinja og með marga í vinnu leigði öll herbergin fyrstu 18 mánuðina. Því voru tekjurnar öruggar og Díana gat einbeitt sér að því að byggja við og fjölga herbergjunum. Í dag eru 19 herbergi á gistihúsinu og fallegur sundlaugargarður sem Donald sonur hennar hannaði. 

Eitt stærsta verkefni Díönu alla tíð hefur verið að finna gott starfsfólk og það hefur hún svo allt þjálfað alveg frá grunni, hvort sem um er að ræða kokkana eða þernurnar á gistihúsinu. „Ég hef verið heppin, en líka óheppin,“ viðurkennir Díana og segir að oft hafi það útheimt mikla vinnu og fyrirhöfn að finna rétta starfsfólkið. Hún byrjaði með fjóra starfsmenn en í dag eru þeir yfir fimmtíu. „Það skiptir mig miklu máli að vita að með því að ráða fólk í vinnu er ég að hjálpa heilu fjölskyldunum. Þetta er mjög mikilvægt fyrir mig. Þetta er mitt hjálparstarf hér í þessu fátæka landi, ef svo má að orði komast. Það er mjög gefandi.“

Fólk sem unnið hefur á 2friends og fengið þjálfun undir leiðsögn Díönu er líka eftirsótt vinnuafl annars staðar.

Þjóninn Adam á 2friends hefur samið vinsælt lag um staðinn …
Þjóninn Adam á 2friends hefur samið vinsælt lag um staðinn sem er spilað á barnum þegar fjör færist í leikinn að kvöldi. mbl.is/Sunna

Ástin blómstrar á barnum

Díana segist hafa gert sér grein fyrir að fyrstu árin yrði hún sjálf að vinna mjög mikið. Síðan hafi hún séð fyrir sér að geta tekið því rólegar. En allt kom fyrir ekki. „Það hefur verið mikið að gera öll þessi ár, allan tímann. En nú hef ég ákveðið að bæta ekki frekar við. Þetta verður svona.“

Í dag gengur reksturinn vel. Á veitingastaðinn og barinn koma daglega margir fastagestir enda er stemningin lífleg og skemmtileg. Á gistiheimilið koma svo gestir frá öllum heimshornum svo yfirbragðið er ávallt fjölbreytt og áhugavert. Á barnum setjast ókunnugir saman og spjalla um daginn og veginn. Margir hafa kynnst á 2friends og orðið þar jafnvel ástfangnir. Þar hefjast ný ævintýri á hverju kvöldi.

Hefur aldrei fengið heimþrá

Áður en Díana settist að í Úganda hafði hún, eins og eflaust margir aðrir, séð Afríku fyrir sér sem þurra og heita. En Úganda er langt frá því að vera þannig. „Gróðurinn hér og veðurfarið er dásamlegt, það heillaði mig strax og ég kom. Annaðhvort elskar fólk Úganda eða ekki. Ég er svo heppin að geta búið hér, hef aldrei nokkru sinni fengið heimþrá, hvorki til Íslands né Svíþjóðar. Enda er Úganda heimaland mitt í dag, hér vil ég vera allt mitt líf.“

Hvað er hægt að gera í Jinja?

Díana á svölunum heima. Nílarfljót í baksýn.
Díana á svölunum heima. Nílarfljót í baksýn. mbl.is/Sunna
Oft í viku tekur Díana ásamt starfsfólkinu dansspor á veitingastaðnum. …
Oft í viku tekur Díana ásamt starfsfólkinu dansspor á veitingastaðnum. Hún segir dansinn gera alla glaða. mbl.is/Sunna
Ströndin fyrir neðan hótelið 2friends í borginni Entebbe. Donald sonur …
Ströndin fyrir neðan hótelið 2friends í borginni Entebbe. Donald sonur Díönu rekur það hótel. mbl.is/Sunna
2friends hótelið í Entebbe sem var opnað í ágúst. Donald …
2friends hótelið í Entebbe sem var opnað í ágúst. Donald sonur Díönu rekur hótelið og hannaði sundlaugargarðinn. mbl.is/Sunna
Ryan Turner, sveitasöngvari frá Texas, hefur sest að í Jinja. …
Ryan Turner, sveitasöngvari frá Texas, hefur sest að í Jinja. Hann skemmtir hér gestum á barnum á 2friends. mbl.is/Sunna
Díana í garði veitingastaðarins. Hún lagði mikla áherslu á að …
Díana í garði veitingastaðarins. Hún lagði mikla áherslu á að gera garðinn fallegan er hún hóf reksturinn. mbl.is/Sunna
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert