Innbrotsþjófar handteknir í Borgarfirði

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Þrír íslenskir karlmenn, á fertugs- og fimmtugsaldri, eru í haldi lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum. Þeir voru handteknir í Norðurárdal sl. nótt og eru meðal annars grunaðir um innbrot í heilsugæslustöðina og apótekið í Búðardal. Mennirnir eiga allir töluverðan brotaferil að baki.

Mennirnir lögðu á flótta eftir að viðvörunarkerfið í apótekinu í Búðardal fór í gang en slóð þeirra var rakin yfir Bröttubrekku og að felustað þeirra í Norðurárdalnum þar sem þeir voru handteknir og færðir á lögreglustöðina í Borgarnesi. Þeir verða yfirheyrðir þegar runnin er af þeim víman.

mbl.is