Bleikur október að hefjast

Á hverju ára greinast að meðaltali 700 íslenskar konur með krabbamein. Árvekniátak- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins, Bleika slaufan, hefst á morgun. Þökk sé fé sem safnast hefur síðustu ár verður á næstunni hægt að taka upp nýja aðferð um allt land við grein á leghálskrabbameinum.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tók við fyrstu bleiku slaufunni í Hörpu í dag.

Samstaða meðal þjóðarinnar

Bleika slaufan og bleikur október eru alþjóðlegt fyrirbæri sem flest Krabbameinsfélög heims standa fyrir. Slaufan er tákn Krabbameinsfélagins í baráttunni gegn krabbameini í konum. Átakið hófst fyrir 12 árum síðan og hefur stækkað jafnt og þétt síðan.

Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, sagði við afhendingu fyrstu bleiku slaufunnar í dag að það væri ómetanlegt hve margir taki árlega þátt í átakinu. „Þessi almenna þátttaka er birtingarmynd um samstöðu meðal þjóðarinnar um mikilvægt verkefni og hún varpar ljósi á hvernið við Íslendingar erum reiðubúin að leggja hvert öðru lið.“

Í ár verður átakið með nýstárlegum hætti því meðfram sölu á slaufunni verður vakin athygli á málstaðnum með uppboði í „bleika herberginu“ á bleikaslaufan.is. Þar verður hægt að bjóða í ýmsa og óvænta hluti og viðburði, á hverjum degi í 10 daga frá 2. til 11. október.

Öruggari og betri tækni tekin í gagnið

Það fé sem safnast við sölu á  bleiku slaufunni og í bleikum október er Krabbameinsfélaginu afar mikilvægt til að halda uppi verkefnum. Ragnheiður benti á að undanfarin ár hafi félagið getað staðið við loforð um að setja til hliðar fjármagn til að kosta nauðsynlegar framfarir í leit að leghálskrabbameinum.

„Vegna þess munum við á næstunni geta tekið upp nýja aðferð um allt land til greiningar á leghálskrabbameinum, sem er öruggari og betri en núverandi tækni,“ sagði Ragnheiður. „Þessi tækni mun svo gera okkur kleift að gera greinarmun á þeim hópi kvenna sem eru í meiri áhættu og þurfa að koma oft og reglulega til leitar að krabbameinum og forstigum þeirra, og hinum, sem ekki hafa þörf fyrir að koma jafn oft og jafnvel ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert