Einróma stuðningur við álver í Helguvík

Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ríkisstjórnarflokkarnir eru samstiga í stuðningi við uppbyggingu álvers í Helguvík. Það er breyting frá afstöðu fyrri ríkisstjórnar. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra í svari á Alþingi við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur um álversframkvæmdir í Helguvík.

„Iðnaðarráðherra hefur á undanförnum mánuðum átt fundi með flestum þeim sem tengjast framkvæmdum við fyrirhugað álver í Helguvík til að fá sem gleggsta mynd af stöðu mála, þ.m.t. fulltrúum orkufyrirtækjanna. Eftir þau samtöl er það mat ráðherra að skýr vilji allra hlutaðeigandi sé til þess að ljúka verkefninu. Ráðherra mun áfram beita sér fyrir því að greiða fyrir framgangi þess. Frá því að núverandi ríkisstjórnin tók við hefur iðnaðarráðherra lýst mjög skýrt yfir stuðningi við byggingu álvers í Helguvík og hafa stjórnarflokkarnir talað einni röddu í því máli. Er þar um grundvallarbreytingu að ræða frá því sem var í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Í framangreindu viðtali í kvöldfréttum RÚV 27. ágúst við forstjóra Century Aluminum er haft eftir honum að „það mikilvægasta sé að greina megi sterkan vilja hjá íslensku þjóðinni, með því að kjósa ríkisstjórn sem vill hrinda þessu verkefni í framkvæmd.“ Þessi yfirlýsing forstjóra Century Aluminium tekur af allan vafa um að ekki skortir á vilja fyrirtækisins til að bygging álversins í Helguvík haldi áfram. Ríkisstjórnin mun styðja við þau áform af heilum hug og gera allt sem í hennar valdi stendur til að verkefnið geti orðið að veruleika,“ segir í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert