Þyrfti að fá leyfi til að skjóta álftina

Jóhann Nikulásson, bóndi á Stóru Hildisey í Landeyjum segir álftir valda milljónatjóni à kornökrum á hverju ári. Álftir eru alfriðaðar og því ólöglegt að skjóta þær.

„Það er ljóst að bændur verða fyrir umtalsverðu tjóni af völdum álftarinnar. Síðustu tvær vikurnar höfum við þurft að fara út á hálftíma fresti frá sjö á morgnana til átta á kvöldin til að stugga við þeim, en þrátt fyrir það er hún búin að eyðileggja umtalsvert svæði. Ef það er ekki gert þá bara étur hún upp heilu akrana,“ segir Jóhann.

„Þetta er alfriðaður fugl og því ekki hægt að skjóta hann. Fuglinn er svipuð plága í túnunum og í nýræktum á vorin og viðvarandi vandamál megnið af sumrinu. Ég hef verið bóndi í rúmlega tvo áratugi og þeim er alltaf að fjölga.“

Hann segir vandann hafa verið ræddan á búnaðarþingum árum saman og að Bændasamtökin hafa um lengri tíma reynt að fá leyfi fyrir bændur til að verja lendur sínar fyrir ágangi álftarinnar, en allt kemur fyrir ekki. „Það hefur ekki tekist ennþá. Það er samt mjög mikilvægt að menn haldi utan um þann kostnað og tjón sem menn hljóta af þessu og koma þeim upplýsingum til jarðræktarráðuneuata Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins“ segir hann. Vissulega sé nokkur vandi að meta tjónið, en ljóst má vera að hann hlaupi á nokkrur hundruð þúsund krónum og allt upp í einhverjar milljónir hjá umsvifamestu ræktendunum.

Ekki raunhæft að verja akrana

„Það væri ekki óeðlilegt ef löggjafinn greiddi okkur þann kostnað sem við hljótum af því að alfriðaður fugl valdi okkur þessu tjóni. Tíðin í haust hefur líka verið þannig að þreskivélar komast erfiðlega um akrana, en álftin fer létt með það. Þetta ástand getur samt ekki gengið til lengdar, stofninn bara stækkar og stækkar eins og gerist þegar ein dýrategund í vistkerfinu er friðuð. Álftin er líka spök og veit fullvel að það má ekki skjóta hana,“ segir Jóhann.

Hann segir ekki raunhæfan kost að verja akrana með einhverjum friðsamlegum hætti, því í mörgum tilvikum sé um að ræða stór landsvæði. „Það er nánast ógjörningur. Raunhæfasta lausnin á vandanum er að bændur fái leyfi til að skjóta álftina. Ef það verður ekki gert verður löggjafinn að bæta okkur þetta með einhverjum hætti, því þetta er verulegt tjón,“ segir Jóhann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert