Reikna með um 500 milljóna afgangi

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í dag er gert ráð fyrir 458,7 milljóna króna afgangi. Lækka á miðþrep tekjuskattsins úr 25,8% í 25%. Leggja á bankaskatt á fjármálastofnanir í slitameðferð, en það á að skila 11,3 milljörðum í nýjar tekjur til ríkissjóðs.

Sex ár eru síðan fjármálaráðherra lagði síðast fram fjárlagafrumvarp sem gerði ráð fyrir að afgangur yrði á rekstri ríkissjóðs. Fjárlög þessa árs gera ráð fyrir 3,7 milljarða halla, en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á blaðamannafundi í dag að horfur væru á að hallinn yrði 31,1 milljarður, sem er litlu minni halli en á árinu 2012.

Lækka útgjöld um 12 milljarða með aðhaldi

Bjarni sagði meginatriði þessa frumvarps væri að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Til þess að ná þessu markmiði væri gripið til aðgerða á fjórum sviðum. Í fyrsta lagi væri gripið til nauðsynlegra aðhaldsaðgerða á gjaldahlið. Í öðru lagi væru skattstofnar breikkaðir og stigin skref í lækkun skatta. Í þriðja lagi væri gripið til aðgerða með það að markmiði að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og í fjórða lagi væri reynt að örva atvinnulífið til aukinna umsvifa.

Bjarni sagði að ráðuneytunum hefði verið gert að skera niður með almennu aðhaldi. Þetta skilaði 3,6 milljörðum eða 0,8% af veltu fjárlaga. Til viðbótar væru sérstakar aðhaldsaðgerðir sem skila 2,6 milljörðum. Fallið yrði frá nýlegum verkefnum eða verkefnum sem ekki væri byrjað á, en það skilaði 5,8 milljörðum í lægri útgjöldum. Samtals fæli þessi samdráttur útgjalda í sér sparnað upp á 12 milljarða eða 2,5%.

Skattleggja fjármálastofnanir í slitameðferð um 11,3 milljarða

Stærsta tekjuöflunaraðgerð ríkisstjórnarinnar er að gera breytingar á bankaskattinum sem fyrri ríkisstjórn kom á. Samkvæmt gildandi lögum greiða fjármálastofnanir í slitameðferð ekki þennan skatt, en þessu á að breyta. Það skilar ríkissjóði 11,3 milljörðum í nýjum tekjum. Skattprósentan verður ennfremur hækkuð.

Samhliða á að lækka svokallaðan fjársýsluskatt, sem lækkar tekjur ríkissjóðs um 1,1%. Um 200 fyrirtæki borga fjársýsluskatt, m.a. tryggingafélög, lífeyrissjóðir og fleiri. Um 20 fyrirtæki hafa greitt bankaskatt. Bjarni sagði að þessi breyting þýddi að skatturinn lækkaði á öll fjármálafyrirtæki nema stærri fjármálafyrirtæki.

Tekjuskattur í milliþrepi lækkar

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að miðþrepið í tekjuskatti verði lækkað úr 25,8% í 25%. Bjarni sagði að þessi skattalækkun kostaði ríkissjóð um 5 milljarða króna. Hann sagði að um 80% af þeim sem greiða tekjuskatt, væru í þessu skattþrepi.

Framlög til elli- og öryrkjulífeyrisþega og þeirra sem fá bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hækka um 5 milljarða. Þá aukast útgjöld ríkissjóðs til þessa málaflokks um 3,4 milljarða til viðbótar vegna fjölgunar bótaþega og verðbóta. Bjarni sagði að samanlagt væri þetta sá liður fjárlaga sem hækkaði mest milli ára.

Tryggingagjald verður lækkað á næstu þremur árum úr 7,35% í 7%. Gjaldið lækkar um 0,1 prósentustig á næsta ári, 0,1 prósentustig árið 2015 og 0,14 prósentustig árið 2016. Bein áhrif lækkunarinnar á útgjöld fyrirtækja er 3,8 milljarðar þegar breytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda. Bjarni sagði þessa lækkun hafa veruleg áhrif hjá vinnuaflsfrekum fyrirtækjum. Hann sagðist vonast eftir að þetta ýtti undir fjárfestingar hjá fyrirtækjum og hvetti þau til að ráða fleira fólk í vinnu.

Ekki er gert ráð fyrir neinum tekjum í fjárlagafrumvarpinu af sölu eigna, en hins vegar er í frumvarpinu að finna heimild til að selja hlut ríkisins í fjármálastofnunum.

Bjarni Bendediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp ársins 2014 í dag.
Bjarni Bendediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp ársins 2014 í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert