Hreyfivikan verðlaunuð

Hreyfivika á Fljótsdalshéraði
Hreyfivika á Fljótsdalshéraði

Hreyfivika sem íþróttafélagið Höttur og sveitarfélagið Fljótsdalshérað halda utan um á Héraði í næstu viku hefur hlotið verðlaun sem eitt besta verkefnið í evrópsku „Move Week“ herferðinni. Tekið var eftir samvinnu ólíkra hópa í samfélaginu sem leggjast á eitt til að stuðla að aukinni hreyfingu, segir í fréttatilkynningu.

„Við vorum með þegar vikan var haldin í fyrsta sinn í fyrra og auglýstum þá starfið okkar í samstarfi við sveitarfélagið. Það var tekið eftir samvinnunni og hvatningunni til almennrar hreyfingar í samfélaginu,“ segir Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar, sem stýrir verkefninu á Fljótsdalshéraði, í tilkynningu.

Dagana 7. - 13. október stendur yfir svokölluð „Move Week“ víða í Evrópu. Herferðin „Now We Move“ er fjármögnuð af Evrópusambandinu en markmiðið er að 100 milljónir fleiri Evrópubúar verði orðnir virkir í hreyfingu og íþróttum fyrir árið 2020 en eru í dag. ISCA-samtökin (International Sport and Culture Association) halda utan um verkefnið en Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) er aðili að samtökunum og fylgir því eftir hérlendis.

„Tilgangur vikunnar er að vekja athygli á því skipulagða starfi sem er til staðar í samfélaginu og virkja fólk til þátttöku í því. Við vonumst til að fá fleiri inn í okkar starf, jafnt börn sem fullorðna,“ segir Davíð.

Hreyfivika á Fljótsdalshéraði
Hreyfivika á Fljótsdalshéraði
mbl.is