Rjúfa verður þögnina

Þöggun er ríkjandi í málafloknum og hana verður að rjúfa. …
Þöggun er ríkjandi í málafloknum og hana verður að rjúfa. Þögguninni er á vissan hátt viðhaldið af skertu aðgengi að félagslegri og réttarfarslegri aðstoð, að því er segir í yfirlýsingu frá aðstandendum málþingsins. AFP

Kynferðisofbeldi gegn fötluðu fólki er flókinn málaflokkur og er ýmsar brotalamir að finna þegar kemur að umræðu og úrlausnum. Mikilvægt er að ungt fatlað fólk fái tækifæri og stuðning til að rækta sterka sjálfsmynd og auka þekkingu á sínum réttindum. Þá er þöggun ríkjandi í málaflokknum. Hana verður að rjúfa.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra sem stóðu í dag að málþingi um kynferðisofbeldi gegn fötluðu fólki, en hún var lesin upp í lok málþingsins.

Þeir treysta á að málþingið sé aðeins fyrsta skref í langri og góðri vegferð sem stuðli að aukinni umræðu og samfélagslegri vitund um kynferðisofbeldi gegn fötluðu fólki.

Í yfirlýsingunni krefst þess að tekið verði á eftirfarandi atriðum hið fyrsta.

  • Mikilvægt er að ungt fatlað fólk fái tækifæri og stuðning til að rækta sterka sjálfsmynd og auka þekkingu á réttindum sínum.
     
  • Þöggun er ríkjandi í málaflokknum og hana verður að rjúfa. Þögguninni er á vissan hátt viðhaldið af skertu aðgengi að félagslegri og réttarfarslegri aðstoð.
     
  • Mikilvægt er að fatlað fólk sé tekið alvarlega og mark tekið á orðum þess þegar það segir frá kynferðisofbeldi.
     
  • Tryggja þarf aðgengi fatlaðs fólks að ráðgjöf vegna kynferðisofbeldis og stuðla að aukinni sérhæfingu innan félagslega kerfisins og stuðningi við samtök og stofnanir sem styðja við brotaþola í kynferðisbrotamálum.
     
  • Mikilvægt er að svara kalli fatlaðs fólks eftir aukinni kynfræðslu sem tekur mið af margbreytilegu samfélagi. Fræðsla þarf að taka á fjölmörgum þáttum; allt frá öryggi og mörkum í kynlífi, einkennum kynferðisofbeldis og viðbrögðum, til þess hvað einkennir góð samskipti og kynlíf í góðum parasamböndum.
     
  • Áframhaldandi rannsóknir á ofbeldi gegn fötluðu fólki skipta höfuðmáli. Niðurstöður rannsókna sýna að fatlað fólk er í aukinni áhættu á að verða fyrir kynferðisofbeldi og er síður líklegt til að nýta sér þá aðstoð sem í boði er fyrir þolendur ofbeldis.
     
  • Niðurstöður rannsókna má nota til að bæta verklagsreglur um meðferð mála, en slíkar reglur þurfa einnig að uppfylla kröfur Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
     
  • Ljóst er að starfsfólk hefur mikil áhrif á daglegt líf fatlaðs fólks. Mikilvægt er að efla fræðslu um kynferðisofbeldi til yfirvalda, embættismanna, fagstétta, starfsfólks og annarra aðila sem koma að skipulagningu og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk.
     
  • Mikilvægt er að fatlað fólk fái bæði vald yfir og viðeigandi stuðning í daglegu lífi svo draga megi úr aðgreiningu fatlaðs fólks í samfélaginu. Rannsóknir sýna að aðgreind úrræði auka líkur á því að fatlað fólk verði fyrir kynferðisofbeldi.

Að málþinginu stóðu: Stígamót, Rannsóknasetur í fötlunarfræðum, Landssamtökin Þroskahjálp, NPA miðstöðin, Öryrkjabandalag Íslands, Kvennaathvarfið, Reykjavíkurborg, Jafnréttisstofa, Velferðarráðuneytið, Þroskaþjálfafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Ás styrktarfélag.

Ofbeldið falið og í þagnargildi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert