Biðlistar eftir þjónustu fyrir börn

Barna- og unglingageðdeild Landspítalans.
Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. mbl.is/Ómar Óskarsson

Barnageðlæknafélag Íslands hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum af stöðum geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga og skorar á heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, að koma á skipulagi sem feli í sér eflingu þjónustunnar.

Á Sjúkrahúsinu á Akureyri voru nýlega gerðar skipulagsbreytingar sem leiddu til þess að barnageðlæknisþjónusta sjúkrahússins lagðist af. Tímabundið hefur verið ákveðið að veita eina starfandi sérfræðingnum á þessu sviði á Norðurlandi, aðstöðu innan veggja sjúkrahússins en óvissa ríkir um framhald þjónustunnar að öðru leiti, segir í ályktun frá stjórn félagsins.

Stjórn félagsins vekur athygli á að á árunum 1992 til 2006 voru a.m.k. 10 skýrslur samdar af innlendum og erlendum sérfræðingum um stöðu geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga (sjá neðanmál). Þótt ýmislegt hafi áunnist hefur ekki tekist að koma á því heildarskipulagi og hlutverkaskiptingu aðila sem þessar skýrslur kalla eftir. Afleiðingin er vöntun á grunnþjónustu og biðlistar eftir sérhæfðustu þjónustunni.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru börn og unglingar undir 18 ára aldri tæplega 80 þúsund eða um fjórðungur þjóðarinnar. Stjórn BGFÍ gerir það að tillögu sinni að komið verði upp þverfaglegum teymum í tengslum við heilsugæslu þar sem hvert teymi sinni tilteknum fjöldi barna- og unglinga og að staðsetning þeirra ráðist af fjölda ungmenna og landfræðilegum aðstæðum. Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) verði jafnframt gert kleift að verða sérfræðimiðstöð og bakhjarl þessarar þjónustu á landsvísu auk þess að veita sérhæfðustu geðheilbrigðisþjónustuna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert