Milljón úr eigin vasa í krabbameinsmeðferðina

Kostnaður við krabbameinsmeðferð er mörgum þungur baggi.
Kostnaður við krabbameinsmeðferð er mörgum þungur baggi. Morgunblaðið/Eggert

Kostnaðarhlutdeild krabbameinssjúklinga í lyfjakostnaði og allri heilbrigðisþjónustu er orðin alltof há hér á landi. Það kemur fram í nýrri skýrslu Krabbameinsfélagsins um vaxandi útgjöld krabbameinssjúklinga sem var unnin af dr. Ingimari Einarssyni félagsfræðingi og ráðgjafa um heilbrigðismál.

Krabbameinsfélagið óskaði eftir sundurliðuðum upplýsingum frá Landspítalanum um fyrir hvaða þjónustu spítalans brjóstakrabbameinssjúklingar greiði úr eigin vasa þegar ekki hefur verið um eiginlega innlögn að ræða. Kom í ljós að komugjöld og rannsóknir sjúklings sem fer í skurðaðgerð, uppbyggingu brjósts og lyfjameðferð er kominn upp í 215.000 krónur.

Gyða Kristófersdóttir greindist með brjóstakrabbamein fyrir sléttu ári. Hún hefur haldið vel utan um allan kostnað í kringum krabbameinsmeðferðina. „Minn hlutur, sem ég er búin að borga á einu ári, hljóðar upp á 660.000 krónur. Þá er afleiddur kostnaður meðtalinn eins og greiðslur í stöðumæli í hvert einasta skipti sem ég kem á spítalann og stöðumælasektir ef maður er lengur en gert er ráð fyrir,“ segir Gyða.

„Inni í þessari upphæð eru t.d. lyf en lyfjakostnaðurinn jókst mikið í vor þegar lögum um sjúkratryggingar var breytt. Þá eru ákveðin krem, umbúðir, sá hluti sem ég þurfti að borga í hárkollu og augabrúnatattúi, brjóst og sérstakir brjóstahaldarar og lyfjabrunnur sem kostaði mig fjörutíu þúsund krónur.“

Spyr ekki um stétt né stöðu

Gyða á eftir eina lyfjameðferð og uppbyggingu brjósts og gerir ráð fyrir að um 230.000 kr. að minnsta kosti eigi eftir að bætast við. Hún áætlar að í lokin verði hún búin að reiða fram um milljón úr eigin vasa vegna krabbameinsmeðferðar.

„Það er gífurlegur kostnaður á bak við þetta og það er ekki fræðilegur möguleiki að fjármálin geti gengið upp hjá fólki. Krabbamein spyr hvorki um stétt né stöðu. Ég þarf að forgangsraða og sleppi því frekar að borga af einhverju öðru til að geta borgað af meðferðinni. Ég held lífi og annað bíður á meðan en þegar þetta endar get ég vonandi farið að taka til í fjármálunum,“ segir Gyða, sem er einstæð móðir.

Önnur kona með krabbamein sem blaðamaður ræddi við segir að frá því í lok mars hafi komu- og rannsóknargjöld á Landspítalanum kostað hana 140.000 kr. Þá er lyfjakostnaður og annar kostnaður ekki talinn með. Hún segir að það hafi komið sér á óvart hvað hún þurfi að borga mikið sjálf, þetta sé mjög erfitt fjárhagslega en hún á að vera í meðferð út desember. Karlmaður með sortuæxli segir að kostnaður við meðferð í sex mánuði hafi farið upp í 180.000 kr.

Á að samræma niðurgreiðslur

„Það er misskilningur að halda að það að vera veikur á Íslandi kosti ekki neitt,“ segir Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. Niðurstöður skýrslunnar komu henni ekki á óvart. „En það kom mér á óvart þegar skýrslan kom út var hvað niðurstaðan kom mörgum á óvart. Í skýrslunni eru dregnar saman upplýsingar sem eru til í opinberum gögnum en þegar þær voru settar saman í eina skýrslu urðu margir undrandi.“

Ragnheiður segir að það sé mjög mismunandi hvað sjúklingar þurfa að greiða eftir því hvar þeir lenda í kerfinu, en heilbrigðisráðherra hefur skipað nefnd sem á að samræma niðurgreiðslur til sjúklinga.

„Þeir sem greiða mest eru þeir sem eru ekki lagðir inn á spítala, þeir sem fá þjónustu utan sjúkrahúsa og þeir sem þurfa mikið af þeirri þjónustu sem ríkið tekur ekki þátt í eins og sálfræðiþjónustu og sjúkraþjálfun,“ segir Ragnheiður.

Kostnaður við krabbameinsmeðferð er mörgum þungur baggi að sögn Ragnheiðar og jafnvel svo að sjúklingar ráði ekki við aðstæður fjárhagslega. „Þess eru dæmi að fólk taki þá ákvörðun að kaupa ekki þá þjónustu sem er talin nauðsynleg í veikindunum vegna fjárhags.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert