Fimm minniháttar óhöpp á höfuðborgarsvæðinu

Umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir umferðina hafa gengið mun betur fyrir sig í morgun en búast mátti við í ljósi þeirrar miklu snjókomu sem varð í nótt.

Eins og áður hefur verið greint frá rann strætisvagn til við Holtasel og olli töluverðum töfum á umferð. Frá klukkan 6 í morgun til rétt rúmlega 9 urðu fjögur umferðaróhöpp sem rekja má til færðar.

Útafakstur varð á Álftanesvegi upp úr níu. Laust eftir sjö var ekið á umferðarskilti í Lækjargötu, auk þess sem bíll valt í Áslandi, en enginn slasaðist í þessum óhöppum. Þriggja bíla árekstur varð á Nýbýlavegi þar sem einhverjir bílanna festust saman, en fólk slapp ómeitt.

Snjómokstur gengur að sögn lögreglunnar ágætlega. Búið er að salta margar götur, og hjálpar það mikið til. „Við áttum von á meiri skellum og vorum búnir að búa okkur undir það,“ sagði varðstjóri hjá umferðardeild. „Það hægði mikið á umferðinni, sem er bara jákvætt. Fólk tekur bara lengri tíma að fara í vinnuna og veröldin fer ekkert á hliðina við það.“

Frétt mbl.is: Alhvít jörð og ófærð í Reykjavík

mbl.is