Hálka og snjóþekja á vegum

Nú er snjóþekja, hálka, hálkublettir og éljagangur á flestum leiðum á Suðvesturhorninu og á Vesturlandi. Snjóþekja og hálka er á ýmsum vegum á Vestfjörðum og hálka og hálkublettir á Norðurlandi. Flughálka er á Hellisheiði eystri.

Samkvæmt upplýsingasíma Vegagerðarinnar var í morgun éljagangur og hálka frá Þingvallavegi að Hvalfjarðargöngum. Snjóþekja er í Borgarnesi og  Holtavörðuheiði. 

Snjóþekja er frá Reykjavík að Bláfjallavegi, á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálkublettir eru milli Óseyrar og Selfoss og milli Hveragerðis og Selfoss.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við hálku og ófærð. Þeir sem eru ekki á vetrardekkjum ættu að halda kyrru fyrir og fylgjast með upplýsingum um færð og mokstur gatna. Búast má við miklum töfum og er það reynsla lögreglunnar að helsta ástæðan fyrir því eru vanbúnir bílar á ferð.

Lögreglan á Suðurnesjum og Lögreglan á Selfossi segja hins vegar að vegir séu þokkalega greiðfærir og aðeins föl á vegum í umdæmi Selfosslögreglunnar.

Ökumenn eru hins vegar minntir á að sína varkárni í umferðinni, og minnir umferðadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ökumenn á að hafa nægilegt bil milli bíla.

Upplýsingasími Vegagerðarinnar er 1777. Hér má sjá vefmyndavélar Vegagerðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert