95 ár frá síðasta Kötlugosi

Kötlugos 1918.
Kötlugos 1918.

„Ægilegur gufustrókur teygði sig lengra og lengra upp að fjallabaki og loks hljóp jökullinn með eldgangi miklum, vatnsflóði og jöklaburði fram yfir Mýrdalssand til sjávar,“ segir í lýsingu Gísla Sveinssonar sýslumanns af síðasta Kötlugosi sem hófst 12. október 1918, eða fyrir 95 árum í dag.

Kötlugosið 1918 er að öllum líkindum stærsta eldgos í jökli á 20. öldinni. Í skýrslu Magnúsar Tuma Guðmundssonar og Þórdísar Högnadóttur frá árinu 2001 segir að jökulhlaupið sem var gosinu samfara hafi verið stórkostlegt og hafi valdið töluverðum breytingum. Bæði hækkaði Mýrdalssandur og ströndin færðist út á stórum kafla.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir að gosið hafi hafist skömmu fyrir kl. 15. Jarðskjálftar hafi fundist í Mýrdal um tveimur tímum áður en gosmökkurinn sást rísa frá Kötlu. „Hálftíma síðar, um 15:30, náði vestasti armur jökulhlaupsins til sjávar eftir farvegi Múlakvíslar. Um sama leyti klofnaði meginflaumur hlaupsins um Hjörleifshöfða og byltist fram báðum megin við hann, en austustu álmar hlaupsins náðu í farveg Hólmsár ofan við Hrífunes og eftir farvegi Skálmar að Álftaveri. Þar náði hlaupið sennilega hámarki milli kl. 17:30 og 18, og morguninn eftir hafði það að mestu farið hjá.“

Útreiknað gjóskufall í þessu gosi er áætlað um 700 milljónir rúmmetra. Gjóskan dreifðist svipað og í gosinu 1721 þar að segja mjög víða um land.

Í grein Ara Trausta Guðmundssonar sem birtist í Morgunblaðinu 1999 segir um Kötlugosið: „Gosmökkur braust upp úr jöklinum um eittleytið og gjóskan barst í austur. Síðdegis heyrðust dynkir þegar hlaupið braust fram úr vestanverðum Kötlujökli. Þar brotnaði upp hrikagjá í jökuljaðarinn. Skömmu síðar kom einnig fram hlaupvatn og -eðja austar, og mikið af Mýrdalssandi hvarf undir flauminn. Fórst þá nokkuð af hrossum og sauðfé. Daginn eftir var hlaupið að mestu rénað og hafði þá valdið t.d. tjóni á gróðurlendi í Álftaveri. Nokkuð jafnfallin en þunn gjóska var í Skaftártungu og aska barst til Síðu og eitthvað þar ausur fyrir. Fjöldi ísjaka lá á sandinum og voru sumir á stærð við stór fjölbýlishús, eftir myndum að dæma.“

Gosið stóð í þrjár vikur.

Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul
Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert