„Ísland ekki öruggt skjól“

Skjáskot af Silkroad

Ísland virðist ekki vera ákjósanlegur staður fyrir þá sem vilja halda svartamarkaðsstarfsemi í sýndarheimum undan klóm bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) samkvæmt greinarhöfundi á vefsíðunni The Verge en þar er samstarf rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og bandarískra yfirvalda vegna vefsíðunnar Silkroad til umfjöllunar.

Nýlega bárust fregnir af því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi veitt aðstoð á grundvelli réttarbeiðni sem fólst í öflun rafrænna gagna um vefsíðuna en hún var hýst hér á landi. Vefsíðan, sem hýsti markaðssvæði með ólögleg fíkniefni og aðra ólögmæta starfssemi, var að lokum tekin niður og hald lagt á umtalsvert magn af rafrænum gjaldmiðli.

Greinarhöfundur síðunnar The Verge bendir á að enginn samningur sé á milli Íslands og Bandaríkjanna um gagnkvæma dómsmálaaðstoð og að svo virðist sem stór hluti upplýsinganna sem að lokum leiddu til þess að málið komst upp hafi ekki komið frá Íslandi. Bendir hann á að í ákæru komi m.a. fram að mikilvægar upplýsingar tengdar málinu hafi verið lagðar fram af erlendu ríki sem hafi í gildi samning um gagnkvæma dómsmálaaðstoð við Bandaríkin.

Þessar upplýsingar gáfu yfirvöldum aðgang að einkaskilaboðum sem meintur eigandi vefsíðunnar Silkroad og aðrir starfsmenn hennar sendu sín á milli. Þetta hafi reynst gagnlegt þegar kom að því að taka síðuna niður og handtaka meintan eiganda hennar.

Gögn tengd Silkroad voru einnig hýst í Bandaríkjunum, Lettlandi og Malasíu. Lettland hefur í gildi samning um gagnkvæma dómsmálaaðstoð við Bandaríkin en Malasía ekki. Er því ýjað að því í greininni að gögnin kunni að hafa komið frá Lettlandi eða einhverju öðru ríki sem ekki hefur verið greint frá í tengslum við rannsókn málsins.

Þá er einnig þeim möguleika velt upp að beiðni alríkislögreglunnar hafi ekki verið með jafn formlegum hætti og haldið hefur verið fram til þessa. „Fíkniefnasalar í sýndarheimum vita nú að Ísland er ekki öruggt skjól.“

mbl.is