„Kasta rýrð á“ Milestone-menn

Lögmenn í máli sérstaks saksóknara gegn stjórnendum Milestone mæta í …
Lögmenn í máli sérstaks saksóknara gegn stjórnendum Milestone mæta í Héraðsdóm Reykjavíkur. morgun. mbl.is/Rósa Braga

„Sérstakur saksóknari er að reyna að kasta rýrð á sakborninga og aðra sem fjallað er um,“ sagði Ólafur Eiríksson, lögmaður Karls Emils Wernerssonar, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Tekist var á um hvort leggja mætti fram skýrslu rannsakenda í máli á hendur stjórnendum Milestone og þremur endurskoðendum.

Í málinu eru Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone, Karl Wernersson, stjórnarformaður, og Steingrímur Wernerson, stjórnarmaður, ákærðir fyrir umboðssvik, meiriháttar brot á bókhaldslögum og lögum um ársreikninga í tengslum við greiðslur til Ingunnar Wernersdóttur en þær námu á sjötta milljarð króna. Þá eru endurskoðendurnir Hrafnhildur Fanngeirsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson, öll frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, ákærð fyrir brot gegn lögum um endurskoðendur. Þau Margrét og Sigurþór eru ennfremur ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga.

Í ákærunni kemur fram að háttsemi Werner-bræðra og Guðmundar hafi falist í því að þeir létu Milestone fjármagna kaup bræðranna á hlutafé systur þeirra, Ingunnar, í félaginu.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag var tekist á um hvort sérstakur saksóknari megi leggja fram sex skýrslur rannsakenda og tímalínu. Um er að ræða eina möppu af gögnum. 

Ólafur Eiríksson mælti fyrir hönd verjenda allra sakborninga og sagði ljóst að skýrslurnar væru skriflegur málflutningur auk þess sem skýrslurnar væru dagsettar eftir að málið var þingfest. Hann sagði augljóst að skýrslurnar gætu ekki talist sönnunargögn í málinu, framlagningin bryti hreinlega gegn sakamálalögum.

Hann sagði að hægt væri að leggja slíkar skýrslur fram og þær gætu verið sönnunargögn en þá þyrftu þær að bera með sér sjálfstæðar upplýsingar um atvik málsins. Þarna væru hins vegar engar nýjar upplýsingar að finna og með þessari framsetningu væru gögn í málinu tekin út fyrir sviga. „Svo er ýmislegt sem ekki á þarna heima. Til dæmis hugleiðingar rannsóknaraðila þess efnis hvort viðskiptagerningar hafi verið dagsettir aftur í tímann þó svo það sé tekið fram að ekki hafi fengist svar við því. Þarna er verið að reyna kasta rýrð á sakborninga og aðra sem sem nefndir eru í skýrslunum.“

Þá sagði Ólafur að ef héraðsdómur heimilaði þessa framlagningu gagna væru öll mörk afnumin þegar kemur að skriflegum málflutningi. 

Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari hjá sérstökum saksóknara var eðlilega ekki sammála. Hún sagði að gögn málsins hefðu verið takmörkuð eins og hægt væri og að þessi gögn heyrðu undir rannsóknartilvik málsins. Aðeins væri um að ræða athugun lögreglu og niðurstöðu hennar.

Hún sagðist einnig velta fyrir sér, ef framlagningunni yrði hafnað,  hvort lögregla mætti aðeins rannsaka mál en ekki gera skriflega grein fyrir rannsókninni. Þá áréttaði hún að aðeins væri verið að gera grein fyrir tilteknum rannsóknarþáttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert